Njáll Gunnlaugsson

billinn@billinn.is
Innrétting, aksturseiginleikar, hljóðlátur
Upplýsingakerfi, útsýni aftur, pláss í aftursætum
Mazda 3

Með útlitið og eiginleikana með sér

Mazda 3 var frumsýnd í Los Angeles í nóvember og er nú kominn á markað hérlendis og það á svipuðum tíma og aðal keppinautur hans, Toyota Corolla. Bíllinn er með flott útlit sem tekið er eftir og byggir á Kodo hönnuninni, en með því að nota meiri leir en áður þekkist í hönnun á ytra byrði bílsins náðu hönnuðir Mazda fram enn mýkri línum en áður. Mjúkar línur einkenna bílinn og lítið um hvöss horn en C-bitinn er mjög áberandi í hönnun bílsins og eflaust hafa margir mismunandi skoðanir á því hvort hann bæti útlitið eða ekki.

Káetan er með þeim flottari í þessum flokki og minnir meira á stærri og íburðarmeiri bíla.

Flottur frammí

Í hönnun á innréttingu hittir Mazda í mark en hún er vel útfærð og efnisval með því besta sem maður fær í þessum stærðarflokki. Það er saumað leður á mælaborði og einnig á flötum sem líkaminn getur nuddast við, eins og gluggasyllu og miðjustokk. Takkar fyrir miðstöð og þess háttar eru vel staðsettir fyrir miðju og hafðir eins einfaldir og hægt er sem er mikill kostur. Auðvelt er að nota öll stjórntæki og það er gaman að sjá að komið er ljós á rúðuþurrkuarminn til að sýna þegar stillingin er á regnskynjaranum, eitthvað sem aðrir mættu taka sér til fyrirmyndar.

Pláss í framsætum er gott og sætin þar eru mjög þægileg, líka á langkeyrslu eins og bíllinn var meðal annars prófaður. Það sama er reyndar ekki hægt að segja um aftursæti sem eru í þrengri kantinum og fótapláss af skornum skammti. Maður sest niður i þennan bíl og situr mjög lágt í öllum sætum og þar af leiðandi munu börn í yngri kantinum ekki sjá mikið út um gluggana í aftursæti þar sem gluggasyllan er mjög há.

Plássið í farangursrýminu er 351 lítri sem er aðeins neðar en helstu samkeppnisaðilarnir en vegna notkunar á snerilfjöðrun er gólfið lægra en áður og plássið því betra.

Þeir sem sitja afturí þurfa eiginlega að vera af akkúrat réttri hæð til að sjá vel út.
Tveggja lítra SkyActive vélin skilar ágætis viðbragði.

Gamaldags upplýsingakerfi

Upplýsingakerfið er ekki það besta og það er langt síðan undirritaður hefur prófað nýja kynslóð af bíl með svona gamaldags uppflettingu fyrir leiðssögukerfið. Það tekur mikla athygli frá akstrinum að nota kerfið þannig og ætti alls ekki að vera hægt að nota svona kerfi í akstri eins og hægt er í þessum bíl. Kosturinn við upplýsingaskjáinn er hversu langt hann er frá ökumanni, enda ekki snertiskjár, svo að augun þurfa ekki að skipta mikið um fókus til að sjá hvað er á skjánum.

Útsýni úr bílnum mætii vera betra og þá sérstaklega aftur. C-bitinn er eins og áður sagði mjög stór og afturrúður halla mikið upp á við svo að útsýni í blinda punkta verður mjög þröngt. Eins gott að akreinavari er staðalbúnaður í þessum bíl.

Til að bæta fyrir lítið útsýni eru hliðarspeglar af stærri gerðinni og hafðir aftarlega í meiri nálægð við ökumann. Þótt útsýni úr þeim sé gott eru þeir svo nálægt að taka þarf fókusinn alveg af því sem er fyrir framan bílinn.

Gamaldags uppsetning á leiðsögukerfi með snúningsvali er eins og að fara aftur í tímann.

Skemmtilegur akstursbíll

Vélin er tveggja lítra og aðeins 122 hestöfl enda af SkyActive gerð og mengar mjög lítið. Það er samt ágætis viðbragð í henni þegar henni er snúið en togið mætti vera betra. Aksturinn er mjög hljóðlátur og greinilegt að Mazda hefur lagt mikið í að einangra hljóð frá káetu bílsins. SkyActive vélin er nokkurs konar tvinnvél með 24 volta rafkerfi. Startarinn er beltisdrifinn og færir til stimplana þegar bílinn slekkur á sér í kyrrstöðu til að tryggja mýkra start. Lítil Lithium rafhlaða er í bílnum sem er hlaðin með bremusuátaki.

Þrátt fyrir að það þurfi að snúa henni talsvert til að kreista úr henni aflið er hún ekki hávær og átakið skilar sér vel í gegnum sjálfskiptinguna. Sjálfskiptingin er nokkuð góð og fljót að taka við sér og skipta bílnum ef búið er að stilla hann á sportstillinguna. Það er sérstakt að sjá valskiptinguna með mínus fyrir ofan, svo að ýta þarf stönginni upp til að skipta niður.

Mazda valdi að fara þessa leið vegna þess að það er sú uppsetning sem notast er við í keppnisbílum, hvort sem það er nú skynsamlegt eða ekki. Það gefur þó allavega sportlegri upplifun við aksturinn. Það er góð tilfinning í stýri í þessum bíl og fjöðrunin gerir sitt til að halda honum við veginn.

Fjöðrunin er hefðbundin MacPherson að framan en að aftan er komin endurhönnuð snerilfjöðrun. Af hverju skyldu hönnuðir Mazda hafa horfið frá Fjölliðafjöðrun sem einkennir flesta bíla í þessum flokki? Fyrir utan að vera einfaldari og léttari búnaður sem sparar pláss er auðveldara að fínstilla hana og það virðist einmitt vera það sem þeir hafa náð að gera.

Tveggja lítra SkyActive vélin skilar ágætis viðbragði.

Góður kokteill

Grunnverð Mazda 3 er 3.490.000 kr sem verður að teljast nokkuð gott í samkeppninni. Helsti keppinautur hans er Toyota Corolla sem er hálfri milljón dýrari í grunninn. Annar sterkur keppinautur er Honda Civic sem er ódýrari en Mazdan, byrjar í aðeins 3.090.000 kr eða Hyundai i30 sem kostar frá 3.390.000 kr. Segja má að Mazda 3 sameini því gott verð og gæði sem er alltaf góður kokteill.

Fótapláss er af skornum skammti í aftursætum.
Það er dáldið hátt uppí skottið sem er þó dýpra og rýmra en áður.

Tækniupplýsingar

Verð frá: 3.490.000 kr.

Vél: 1.998 rsm

Hestöfl: 122 við 6.000 sn.

Newtonmetrar: 213 við 4.000sn.

0-100 k á klst: 10,4 sek.

Hámarkshraði: 202 km

CO2: 119 g/km

Eigin þyngd: 1.274 kg

L/B/H 4660/1795/1435 mm

Eyðsla bl ak: 5,2 l/100 km

Hér kemur auglýsing

Einhver linkur