Jóhannes Reykdal

billinn@billinn.is

Nýr Ford Focus

Ford Focus hefur í áranna rás verði verðugur fulltrúi hins dæmigerða fjölskyldubíl, þægileg stærð, fimm hurðir þar með talinn góður afturhleri sem gefur aðgengi að ágætu farangursrými.

Fyrsta kynslóðin kom á markað 1998 sem arftaki hins sívinsæla Ford Escort. Kannski ekki mest spennandi bíll í heimi, en náði samt strax árið eftir að hampa titlinum „Bíll ársins í Evrópu“. Næsta kynslóðin kom á markað 2004. Vegna þess hve fyrsta kynslóðin þótt vel heppnuð var ekki miklu breytt, en samt var þessi önnur kynslóð eilítið stærri.

Þriðja kynslóð Focus kom svo fram í dagsljósið snemma ár 2011. Núna var meira um breytingar og í tæknilegu tilliti voru nokkrar breytingar líka. Velgengi Ford Focus hélt áfram og á árinu 2014 var Focus algengasti bíllinn á Englandi, samtals 1,5 milljónir bíla af þeirri gerð rúlluðu þá um vegi Englands.

Ford Focus – fjórða kynslóðin af þessum lipra fjölskyldubíl stendur vel fyrir sínu.

Fjórða kynslóðin – með sportlegri hönnun

Fyrr á þessu ári kynnti Ford til sögunnar fjórðu kynslóðina – og vildi með því halda upp á 20 ára afmæli bílsins. Útlitið tók núna töluverðum breytingum, mun sportlegra en áður, og vel undirstrikað með kraftmeiri línum, nýrri hönnun á fram- og afturenda.

Staðalbúnaður er ágætur í þessum nýja Ford Focus – og stendur vel gagnvart keppinautunum á markaðnum því gæði innréttingar, rými og tæknibúnaður stendur öllum helstu keppinautum vel á sporði. Hann er með loftkælingu og upphitanlegri framrúðu, fékk fimm stjörnur í öryggisprófi EURO NCAP, er sítengdur með Bluetooth og búinn nýjustu tækni. Meðal öryggisbúnaðar má telja ökumannsvaki (Drivers Alert), árekstravari (Active City Stop), og veglínuskynjari (Lane Keeping Alert).

Af öðrum búnaði má undirstrika hve bíllinn er vel búinn í tæknilegu tilliti. Það tekur andartak að tengja símann við hljómtæki bílsins, hægt að svara símanum með hnöppum á stýrishjólinu, eða á stórum snertiskjá í miðju mælaborðsins.

Ekkert handbremsuhandfang er í Focus, aðeins lítill flipi þar sem handfangið er venjulega og stöðuhemillinn settur æa með einni fingurhreyfingu með tilheyrandi skilaboðum í mælaborðinu.

Aksturseiginleikar eins og þeir eiga að vera – stýrið sem er með rafdrifnu hjálparátaki sér til þess að billinn fylgir vel hverri hreyfingu.

Nýjar vélar og sex gíra handskipting

Grunngerð þessa nýja Ford Focus státar af nýjum vélum þriggja strokka, 1,0 lítra EcoBoost í tveimur útgáfum, 100 og 125 hestöfl. En til að fullnýta aflið er boðið upp á að láta rafeindastýringu stjórna því hvernig vélin skilar aflinu um gírkassann til hjólanna. Val er um þrjár stillingar, Normal/Eco/Sport – meira um það síðar.

Sá sem þetta skrifar er þeirrar skoðunar að fjölskyldubílar í þessum stærðarflokki eigi að vera sjálfskiptir, en bílaframleiðendur eru ekki alveg sammála þessari skoðun minni, og því er boðið upp á handskipta gírkassa. En hér hefur gírkassinn verði aðlagaður fjölbreyttum akstri og er með sex gíra, sem gerir mögulega að nýta aflið úr mótornum til hins ítrasta.

Kraftmiklar línur í útlitinu undirstrika vel sportlega eiginleika.

Einn takki breytir bílnum í „urrandi sportara“

Þegar Gísli Jón Bjarnason rétti mér lykilinn að reynsluakstursbílnum þá benti hann mér á það helsta sem væri sérstakt við þennan bíl, en undirstrikaði jafnframt þá nauðsyn að ég myndi prófa vel mismuninn í aksturslagi sem takkinn sem skiptir um akstursstillingar – Normal/Eco/Sport – hefði á upplifunina í akstrinum.

Að sjálfsögðu gleymdi ég þessu fyrstu kílómetrana, dáðist að því hve þessi raunverulega litla vél skilað bílnum vel áfram, aflið er nægilegt og vélarhljóðið í raun lítið.

Svo kom að því að ég mundi eftir takkanum góða – og þá koma annað hljóð í strokkinn í þess orðs fyllstu merkinu! Í sparnaðarstillingunni (Eco) er ekki mikil breyting, vélin virðist aðeins seinni að taka við sér, enda á þessi stilling að spara eldsneytið og passa þannig upp á veskið okkar. En við það að setja sportstillinguna á þá snarbreytist þessi bíll! Í stað hins dæmigerða fjölskyldubíls þá breytist þessi Ford Focus í „urrandi sportara“ – meira að segja hljóðið breytist. Það er eins og aflið úr vélinni hafi snaraukist, hún svara inngjöfinni miklu betur og það er auðvelt – og fljótlegt að fara upp í leyfð hraðamörk á götunum.

Þriggja strokka 1.0 lítra EcoBoost vélin kemur þægilega á óvart og er með nægt afl. Þessi nýja stefna í sparneytnum bílvélum er greinilega að skila sér vel hér

Góð innrétting

Í heildina litið er innrétting og aðbúnaður góður í þessum nýja Ford Focus. Sætin eru með marga stillimöguleika og halda vel utan um mann í akstri. Þegar ég var búinn að stilla ökumannssætið eins og ég vildi hafa það þá fannst mér inn og útstig ekki eins lipurt og ég vildi hafa það, en vandist fljótt.

Allt efni í innréttingu, jafnt í mælaborði og áklæði á sætum eru á pari við það sem gerist best í bílum í þessum stærðarflokki.

Höfuðrými er gott í framsætum, allar stillingar á stýrishjóli og sætum eru auðveldar.

Mælaborð og stjórntæki eru til fyrirmyndar, allt innan seilingar.

Góðir aksturseiginleikar

Miðað við eldri gerðri Ford Focus hefur þessi nýi tekið gott skref framávið hvað varðar aksturseiginleika. Stýrið svarar vel í beygjum, vélin er aðeins sein að svara fyrir neðan 2.000 snúninga á mínútu, en um leið og ökumaðurinn kemst upp á lag með það að nýta alla sex gírana þá er hægt að kalla fram snörp viðbrögð á hvaða hraðsviði sem er.

Mælaborðið er með ágæta yfirsýn, og í heildina er boðið upp á slíkan fjölda að tökkum og stillingum, jafnt á mælaborðinu, á stýrishjólinu og á snertiskjánum að það tekur eflaust nokkra daga að rata á þetta allt í fyrstu tilraun.

Eitt af því sem ég gat látið fara í taugarnar á mér er hve litlir hliðarspeglarnir eru orðnir, sérstakleg miðað við „gamla“ Focus. Þeir eru þríhyrningslaga og mjókka út, en eflaust er þessi hönnun árangur viðleitni til að minnka loftmótstöðu og þar með eyðsluna.

Svörun stýrisins er ánægjulega góð, jafnt í almennri umferð og eins á krókóttum vegunum í jaðri Heiðmerkurinnar, þar sem næmni stýrisins skilar sér vel. Fjöðrunin er alveg á pari við alla aðra bíla í þessum stærðarflokki og jafnvel betur, tekst vel á við ójöfnur og holur í malbikinu.

Sex gíra handskiptur gírkassinn nær að nýta hvert „gramm“ af afli til hins ítrasta. Takkarnir við hliðina á gírskiptistönginni stjórna því hvernig drifrásin nýtir aflið og sá aftasti skiptir á milli venjulegs aksturs, sparnaðaraksturs og loks sportlegu eiginleikana, og þegar það er valið breytist bíllinn í „alvöru sportara“!
Það fer vel um ökumanninn undir stýri, en inn og útstig er aðeins takmarkað þegar búið er að stilla stýri og sæti í bestu stöðu – alla vega í tilfelli þessa reynsluaksturs.
Rými í aftursæti, jafnt fyrir höfuð og fætur, er í góðu lagi.
Líkt og í eldri gerðum Focus er farangursrýmið eitt af aðalsmerkjum bílsins

Niðurstaða

Þessi nýi Ford Focus heldur svo sannarlega uppi merki eldri kynslóðanna þriggja, og gerir gott betur en það.

1,0 lítra EcoBoost vélin er að skila sínu afli vel og með sex gíra handskiptum gírkassa er hægt að toga hvert einast hestafl í botn.

Verðlega séð er þessi nýi Focus á góðum stað. Ódýrasta útgáfan með 1,0 EcoBoost 100 hö og sex gíra handskiptum gírkassa kostar kr. 3.190.000 og næsta gerð þar fyrir ofan, með sömu vél sem skilar 125 hestöflum kostar kr. 3.390.000

Raunhæfur valkostur fyrir þá sem vilja góðan fjölskyldubíl í millistærð, sem býr líka yfir sportlegum eiginleikum.

Ljósmyndir: Tryggvi Þormóðsson

Hér kemur auglýsing

Einhver linkur