Njáll Gunnlaugsson

billinn@billinn.is

Jagúar I-Pace hittir í mark

Jagúar I-Pace er fyrsti Evrópski rafmagnsbíllinn í lúxusflokki sem kemur á markað, hálfu ári á undan keppinautum eins og Audi e-tron og Mercedes-Benz EQC. Hann hefur hlotið einstaklega góðar viðtökur á þeim sex mánuðum sem liðnir eru síðan bíllinn kom fyrst á markað og sópað til sín verðlaunum. Hann er Bíll ársins í Skotlandi og Þýskalandi, Bíll ársins hjá bílablöðum Sunday Times, Auto Express og T3. Síðast en ekki síst er hann einn af sjö bílum í úrslitum fyrir Bíl ársins í Evrópu 2019. Fimm kynningar eintök komu hingað til lands í september og gafst þá billinn.is tækifæri á að prófa bílinn á fyrsta kynningarkvöldinu. Við fengum svo bílinn aftur til alvöru prófunar í nóvember og hér er dómur okkar um bílinn.

Jagúar I-Pace er sannkallað orkubúr á hjólum en um leið skemmtilegur akstursbíll sem hannaður er til brautarkeyrslu.

Djörf en falleg hönnun

Það er óhætt að segja að I-Pace vekur athygli fyrir djarfa hönnun og þótt að hér sé um fjórhjóladrifinn sportjeppa að ræða er pakkinn eins og upphækkaður fólksbíll sem hefur verið stækkaður um helming. Fyrir vikið er útlitið sportlegra en hjá flestum jeppum í þessum flokki. Kostir hönnuninnar stoppa ekki þar, því að bíllinn er bæði rúmgóður og aðgengilegur. Hurðirnar eru stórar og gott að setjast inn og stíga út en ef setið er aftarlega verður B-bitin aðeins fyrir í útstiginu. Sætin eru vel heppnuð, bæði þægileg og gefa góðan stuðning. Sama má segja um sætin tvö afturí þótt miðjusætið bjóði ekki uppá eins mikið pláss og búast mætti við af bíl sem er rúmlega tveggja metra breiður. Hjólin eru mjög utarlega sem sést best á því að tveir þriðju af lengd bílsins eru á milli hjóla. Farangursrýmið er líka vel viðunandi í I-Pace, 656 lítrar og með aftursætin í gólfinu stækkar það uppí 1.453 lítra. Það er nokkuð langt frá plássinu í Tesla Model X sem er allt að 2.180 lítrar, og það sama má segja um plássið undir húddinu sem er aðeins 28 lítrar í I-Pace á móti 187 lítrum í Model X. Hönnunin innandyra er líka flott og meira eins og í hefðbundnum bíl en öðrum rafmagnsbílum. Mesta athygli fá tveir stórir skjáir en einnig er snertiskjár við miðstöðvarstillingarnar og meira að segja stillihnapparnir tveir eru með litlum skjám sem sýna hitann.

Jagúar fer skemmtilegri leið í mælaborði en flestir rafmagsbílar með notkun snertiskjáa, eins og fyrir miðstöðina sem hér er sýnd.

Með skemmtanagildið á hreinu

Það er margt í akstri I-Pace sem kemur á óvart. Hann er hljóðlátari en margir rafmagnsbílar og þótt það kunni að hljóma skringilega í bíl sem er ekki með sprengihreyfli er staðreyndin einfaldlega sú að þegar maður er laus við vélarhávaða magnast önnur hljóð upp. Meira að segja á möl er I-Pace bæði laus við malarglamur í undirvagni og hjólaskálum og er líka nánast laus við að vera hastur eins og fyrirfram hefði mátt búast við af bíl í þessari þyngd. Hann er líka hraðskreiður og fljótur upp enda hestöflin 400 að tölu. Hann er kannski ekki alveg jafn snöggur og Tesla Model S af stað en snöggur er hann samt með aðeins 4,8 sekúndur í hundraðið sem er gott fyrir bíl sem vegur rúm tvö tonn. Það er líka stutt í að við munum sjá kraftmeiri SVR útgáfur og gaman verður þá að bera saman topp rafmagnsbílana. Eins og aðrir rafmagnsbílar steinliggur I-Pace í akstri og hringtorgin á leiðinni út úr bænum hafa allt í einu skemmtanagildi. Skiptir þar máli hvað rafhlöðurnar eru neðarlega og lækka þyngdarmiðju bílsins, en hún er 130 mm lægri en í systurbílnum F-Pace. Veghæð er að jafnaði 142 mm sem er svipað og í hefðbundnum fólksbíl en hana má síðan hækka á loftpúðum uppí 200 mm. Botninn er sléttur sem er kostur utanvega og vaðdýpt kemur á óvart en hún er 508 mm sem er svipað og í góðum jeppa. Jagúar hefur líka bætt við fídusum sem auka aðeins á akstursánægjuna, eins og hljóði þegar bílnum er gefið snöggt í sportstillingunni, sem minnir á Tie stjörnuskip úr Star Wars.

Ef ökumannssæti er aftarlega eins og hentaði greinarhöfundi var B-biti aðeins fyrir í útstigi.
Sætin eru bæði falleg og þægileg og heildarsvipurinn innandyra mjög smekklegur.

Góð drægni en hleðsla mætti vera öflugri

Hleðslan á venjulegu heimarafmagni tekur 10 tíma en aðeins 45 mínútur ef um 100kW hleðslustöð er að ræða. Margir framleiðendur eru að þróa aflmeiri hleðslustöðvar og til dæmis mun Porsche Taycan bjóða uppá 350kWh hleðslu. Jagúar I-Pace mun geta aukið hleðsluna uppí 120kWh með breytingu á hugbúnaði bílanna. Drægnin samkvæmt hinum nýja WLTP staðli er frá 415-470 km, en þessi staðall mælir drægni í tveimur gildum, hámarks og lágmarks. Jagúar hefur fengið gagnrýni fyrir að bjóða ekki uppá 100kWh helðslustöðvar við söluumboð sín og ekki var neina slíka að sjá við nýjar höfuðstöðvar Land Rover/Jagúar á Hesthálsi. Meira að segja var enginn hleðslusnúra með bílnum sem fenginn var til prófunar en sem betur fer kom drægni hans í veg fyrir að það kæmi að sök.

Farangursrými er 656 lítrar sem er vel viðunandi í bíl af þessari stærð.
Hurðarhúnar fallla inní hurðar bílsins líkt og í Tesla Model S en hönnunin á þeim er þó aðeins klossaðir en hjá Tesla.
Tækniupplýsingar:

Drægni skv. WLTP: 415-470 km

Hleðslutími 7kW: 12,9 stundir

Hámarkshraði: 200 km/klst

Hröðun 0-100 km: 4,8 sek.

Rafhlaða: 90kWh

Hámarksafl: 400 hestöfl

Hámarkstog: 696 Nm

Eigin þyngd: 2.208 kg

Lengd/breidd/hæð: 4.682/2.139/1.565 mm

Veghæð: 142 mm

Farangursrými: 656 lítrar

Hér kemur auglýsing

Einhver linkur