Óskar Pétur Sævarsson

billinn@billinn.is

Hreinsar loftið, ekki veskið

Ég fékk óvænt til prufu Hyundai Nexo vetnisbíl frá Hyundai í Kauptúni í Garðabæ. Ég vissi ekki einu sinni að vetnisbíll væri í boði frá þeim, en um leið og ég kíkti á heimasíðuna þá hviss bamm búmm, þarna var hann ásamt öllum hinum.

Hyundai Nexo er glænýr vetnisbíll sem var frumsýndur í janúar 2018 og kom til landsins seint um haustið 2018. Nexo er hannaður til að vera eingöngu knúinn áfram af vetni, ólíkt fyrrum vetnisbílum Hyundai. Það finnst vel þegar honum er ekið um vegi landsins enda  kemur hann gífurlega vel búinn og með einum stærsta skjá í mælaborði sem ég hef séð. Mér leið örlítið eins og ég væri mættur í minnsta kvikmyndahús landsins, hann var svo stór.
Mælaborðið í Hyundai Nexo er einstaklega vel heppnað og prýðir það þessum fallegu stafrænu skjáum bæði fyrir afþreyingarkerfi bílsins og fyrir mælaborðið.

Ég varð fljótlega vanur stærðinni á skjánum og þrátt fyrir að ég noti ekki gleraugu og sjái ágætlega þá skildi ég  ekki af hverju allir skjáir eru ekki svona stórir. Mælaborðið í heild er síðan stórmerkilegt. Þar ertu með eins konar fljótandi stjórnborð á milli sætanna. Hér er ekki að finna hefðbunda gírstöng heldur sama takkaborð og finnst í Hyundai Kona rafmagnsbílnum.

Stjórnborðið á milli sætanna í Nexo er gullfallegt bæði að degi og nóttu. Það minnir mann helst á stjórntæki fyrir dýrar einkaþotur fremur en bíl.

Gott aðgengi og nægt pláss

Aðgengi að Nexo er frábært í alla staði. Hurðir opnast allar vel og bjóða mann velkominn í innanrými sem er bæði vel hannað og með frábært efnisval í alla staði. Ekkert hart plast og/eða leiðinleg sæti. Sætin eru reyndar alveg sér kapituli út af fyrir sig. Þau eru gífurlega vel heppnuð hjá hönnuðum Hyundai. Þau eru stíf þar sem þú vilt að þau séu stíf og mjúk þar sem þú vilt að þau séu mjúk. Og að sjálfsögðu eru þau hituð og kæld eins og Hyundai mönnum er einum lagt. Hyundai í mínum huga er einmitt fullt af búnaði fyrir engan pening.

Innanrými Nexo er bjart og fallegt með prýðisgóðu efnisvali. Aftursætunum er hægt að halla til að fórna skottplássi fyrir þægilegri sætisaðstöðu.

Aðgengi fyrir aftursæti er síðan til fyrirmyndar. Hurðirnar opnast breitt og vel og átti tengdamóðir mín í engum vandræðum að hoppa inn og út úr bílnum. Ég kom líka fyrir bakvísandi barnabílstól fyrir ungabarn og var það ekkert mál. Hann small beint í ISIOFIX festingarnar og sat sem fastast á sínum stað. Plássið á milli sætanna er líka gott. Tengdafaðir minn ,sem er hávaxinn fyrir allan peninginn, stillti sætið sitt til að hafa nægt fótapláss frammi í og fyrir aftan hann hefði verið hægt að flytja hávaxinn körfuboltamann frá Akureyri til Ísafjarðar með viðkomu á Höfn í Hornafirði án nokkurra vandræða.

Skottið er mjög stórt  eins og búast má við frá bíl í þessum stærðaflokki. Kassalaga og með alveg flatt gólf sem auðveldar alla hleðslu og afhleðslu.

Premium búnaður fyrir Style pening

Búnaðurinn í Nexo er til fyrirmyndar og langt frá því að svipa til Atacama Eyðimerkurinnar. Blátannarbúnaður, Apple CarPlay, Android Auto, þráðlaust net, hiti í stýri, hiti í aftursætum, lyklalaust aðgengi og fullt af öðrum búnaði. Best af öllu er þó blindhornaviðvörunin. Þar færðu tvöfalt kerfi. Fyrst færðu gul ljós í spegla eins og hjá mörgum öðrum framleiðendum. Við þau bætist svo við eitthvað sem ég hef aldrei séð áður og trúði varla að enginn annar hefði gert. Þegar þú setur stefnuljósið á þá varpar hann mynd af blindhorninu í mælaborðið frá myndavél sem er falin í hliðarspeglunum. Það gerir það að verkum að þú lítur upp í aftursýnisspegilinn, svo í mælaborðið og svo að lokum í spegilinn sjálfann þegar þú skiptir um akrein. Enginn snúningur í sætinu, ekki einu sinni í ytri hring hringtorga. Nexo er því eini bíllinn sem þú getur keypt ef þú þjáist af miklum hálsríg.

Við akstur er útsýni ökumanns alveg til fyrirmyndar. Stórir speglar gera það mjög auðvelt að átta sig á stærð bílsins.

En hvernig er að keyra vetnisbíl?

Akstur á Nexo svipar mikið til aksturs á rafmagnsbíl. Bílinn er með vél sem býr til rafmagn sem er leitt áfram í rafmagnsmótor sem knýr bílinn áfram. Nexo er 163 hestöfl og með tog upp á 400nm og er það feikinóg. Hann er nokkuð snöggur af stað og krafturinn í honum minnkar ekkert þó ekið sé upp í löglegan hámarkshraða á vegum landsins. Hljóðin frá honum minna helst á geimskip í amerískum vísindaskáldsögum. Búnaðurinn fyrir framleiðslu og geymslu á vetninu er síðan dreift um bílinn til að jafna þyngdardreifinguna. Þú finnur samt fyrir því að þyngdardreifingin er ekki eins og í rafmagnsbílum þar sem rafhlaðan er undir bílnum og gefur honum lágan þyngdarpunkt.

Þarna ber fyrir augum vélarrúm Nexo. Þarna framleiðir bíllinn rafmagn með því að blanda saman vetni og súrefni til að blása því út sem vatni.

Fyrir mig sem elskar að keyra er það æði. Þetta gerir það að verkum að Hyundai Nexo er ekki bara enn eitt rafbrettið til að koma þér á milli staða heldur alvöru bifreið sem hefur karakter þegar kemur að aksturslagi hans. Hann er gífurlega skemmtilegur í akstri. Úti á þjóðvegi er hann mjúkur og hljóðlátur. Innanbæjar er hann svo snöggur af stað og auðvelt er að átta sig á stærðinni á honum til að skjótast á milli annarra bíla. Á grófum götum höfuðborgarinnar er hann svo ekkert að kippa sér upp við litlar hæðir sem skipulagsyfirvöld borgarinnar kalla hraðahindranir. Holurnar í götum borgarinnar eru líka ekkert mál enda er Nexo fullbúinn sportjeppi og því mjög þægilegur á malarvegum líka.

Þarna er fyllt á vetni. Í staðinn fyrir að þú dælir bensíni eða dísil í tankinn fer vetni. Ekki flókið.

Drægni og áfylling

Margir spyrja sig eflaust hversu langt þú kemst á Nexo og hvernig í ósköpunum þú fyllir á hann. 666 km er uppgefin drægni og á fullum tanki komst ég 670 km (ekki spyrja, ég keyri greinilega löturhægt). Að fylla á tankinn er síðan ekkert mál. Þú ferð einfaldlega á vetnisstöð, sem er mjög lík bensín- eða dísildælu, setur kortið í lesarann, tengir síðan dæluna við bílinn og ýtir á grænan takka. Við það hefst áfyllingin og vetninu er dælt á með akkurat engri dramantík. Þegar ég prófaði þetta í fyrsta sinn varð ég fyrir alveg pínu vonbrigðum um hversu auðvelt þetta var. Ég bjóst við að þurfa að læra á spliff, donk og gengju til að þetta gengi upp.

Það er einfalt að fylgjast með hvernig kerfið í Nexo virkar. Það er teiknað upp af grafískum hönnuðum Hyundai á einfaldan og þægilegan máta sem er auðskiljanlegur.

Tvær vetnisstöðvar eru á landinu en fleiri í undirbúiningi þegar þessi orð eru skrifuð og þá þriðju er verið að leggja lokahönd á. Það gefur þér drægni uppá 300km út frá Höfuðborgasvæðinu og Suðurnesjum. Þannig að ef þú ert leigubílstjóri sem ekur reglulega til Keflavíkur ásamt innanbæjarskutli á Höfuðborgarsvæðinu er Hyundai Nexo fyrir þig. Það er líka nokkuð auðvelt að átta sig á hversu langt þú kemst á hverri áfyllingu því það svipar til reiknings þegar kemur að því að ákveða hversu mikið kjöt, nú eða hnetusteik, þú átt að kaupa fyrir sunnudagssteikina.

Þar hugsar maður: Einar frændi kemur með sína fjölskyldu og þau eru átta því hann kann ekki á getnaðarvarnir svo þar þarf ég 200g fyrir hvern, svo það gerir 1,6 kg, síðan ég og mín þannig að ég kaupi eitt tveggja kílóa læri, það verður nóg.

Þannig gerir þú þetta á Nexo. Hann fer með um 1 kíló af vetni á 100 kílómetra svo tvö kíló eru nóg fyrir 200km o.s.frv. Þetta venst því furðu fljótt og ef ég gat lært þetta þá ætti restin af hinni íslensku þjóð svo sannarlega að geta það líka.

Á hlið er Nexo mjög fagur á að líta og gefa hurðahandföngin sem falla inní hurðirnar honum skemmtilegt útlit og gerir það auðvelt að sjá hvenær hann er læstur eða opinn.

Lokaorð

Það er alveg greinilegt að orkusiptin í bílageiranum eru að gerast, það getur enginn neitað því. En fyrir þá sem búa ekki við einkastæði við bílskúr er erfitt að réttlæta það að skipta alveg út jarðefnaeldsneyti fyrir endurnýtanlega orku. Jafnvel þó að þú hafir hleðslustæði í vinnunni þá vona ég samt sem áður að þú fáir sex vikur í sumarfrí eins og við hin og þá ertu ekki að fara að mæta í vinnuna bara til að hlaða bílinn.

Vetnisbílar koma því sterkt inn. Ólíkt því sem öfgafullir lithíumhausar með átrúnaðargoð í Kaliforníu segja þá er vetni góður möguleiki fyrir Ísland. Hér er endurnýjanleg orka notuð til framleiðslu á vetninu og eini útblástur bílsins er vatn. Nexo meira að segja hreinsar loftið sem hann notar í efnaskiptunum í bílnum og skilar því hreinna lofti frá sér en kemur inní hann. Borgarstjórn gæti því hvatt Nexo eigendur til að fara út á rúntinn þegar að loftgæðin eru slæm í höfuðborginni.

Ég mæli með Hyundai Nexo fyrir alla þá sem hafa snefil af áhuga á því að komast á milli staða og hreinsa aðeins loftið í kringum sig, fá ríkulega útbúinn sportjeppa á góðu verði og eignast hagkvæman og skemmtilegan akstursbíl. Hann er bara í boði sem Premium bíll og því þarftu bara að velja litinn. Bíllinn sem ég hafði til prufu var mattur og grár. Ég mæli með því.

Ef þér lýst á’ann, keyptann!

Myndir: Óskar Bílakall

Hér kemur auglýsing

Einhver linkur