Njáll Gunnlaugsson

billinn@billinn.is

Tilkomumeiri í alla staði

Nýtt útlit Audi A4 er stílhreint en ekki er hægt að segja að breytingarnar sé miklar.

Hönnun

Nokkuð er síðan að endurhönnuð og ný kynslóð Audi A4 kom á markað. Hönnuðir Audi vildu gera nýjan A4 karlmannlegri en fyrri kynslóð sem þótti of mjúk í línum sínum.Samt er ekki mikinn mun að sjá á kynslóðunum að utanverðu en ný Matrixdíóðuljós setja þó sinn svip á bílinn. Innandyra er allt annað uppi á teningnum því að káetan hefur alveg verið endurhönnuð, sem og sæti, upplýsingaskjár og stýrishjól. Búnðurinn í A4 er ansi snjall og munar þar mest um sýndarstjórnborðið með 12,3 tommu skjá.

 

Matrixdíóðuljós setja talsverðan svip á bílinn.

Innanrými

Þrátt fyrir að bíllinn sé nú aðeins stærri en áður er farangursrýmið ennþá það sama og áður eða 480 lítrar. Þess í stað hefur meira verið lagt í pláss fyrir farþega og þá helst í fótaplássi og höfuðrými. Það er vel viðunandi fyrir fullorðin karlmann ef hann situr í hliðarsætum. Ef hann flytur sig hins vegar í miðjusætið er allt annað uppi á tengingnum. Höfuðrýmið er minna þar sem að káetuljósið er akkúrat þar sem höfuð miðju farþegans kemur. Miðjustokkurinn hefur alltaf verið stór í Audi bílum og núna bætist við að geymsluhólf milli framsæta skagar aftur í fótarýmið svo að erfitt er að skjóta fót fram hjá því svo vel sé. Maður veltir því fyrir sér í gamni og alvöru hvort að A4 standi fyrir "Aðeins fyrir 4" (fullorðna).

 

Það fer vel um farþega frammí og stórir flatskjáir sýna kynstrin öll af upplýsingum.

Vélbúnaður

Prófunarbíllinn var búinn 1,4 lítra TFSI bensínvélinni en hún skilar 150 hestöflum og sjö þrepa S tronic sjálfskiptingu. Þrátt fyrir örlítið hik í byrjun er ekki hægt að segja að þessi vél sé einhver kettlingur því að viðbragðið þegar hún er kominn aðeins upp á snúning er eftirtektarvert fyrir svona litla vél. Fær maður hálfpartinn á tilfinninguna að bíllinn sé frekar búinn tveggja lítra vél. Einhvern tíman hefði það ekki þótt við hæfi að setja 1,4 lítra vél í bíl í þessum flokki en þeir dagar eru löngu liðnir. Bónusinn er að bensínvélarnar eru nú farnar að skila næstum jafn góðum eyðslutölum eins og dísilvélarnar en 1,4 lítra TFSI vélin ergefin upp fyrir 5,3 lítra í blönduðum akstri.

 

Þótt bensínvélin sé aðeins 1,4 lítrar leynir hún talsvert á sér enda er togið 250 Newtonmetrar.

Aksturseiginleikar

Nýr Audi A4 byggir á MLB Evo botnplötinni sem léttir bílinn talsvert frá fyrri kynslóð eða um 120 kíló. Þrátt fyrir það er bíllinn stærri en áður en hann er 21 mm lengri og hjólhafið eykst um 12 mm. Eins og búast má við í Audi eru aksturseiginleikar eftirtektarverðir og það er gott samræmi í fjöðrun og svörun í stýri. Léttari bíll gerir hann skemmtilegri í akstri og nánast lausan við undirstýringu. Upptakið er einnig orðið betra en þrátt fyrir litla vél er hann aðeins 8,7 sekúndur í hundraðið, þökk sé togi uppá 250 Newtonmetra.

 

Farangursrýmiðer það sama og áður eða 480 lítrar.

Verð og hagkvæmni

Grunnverð Audi A4 með 1,4 lítra bensínvélinni er 6.350.000 kr. Athygli vekur að tveggja lítra vélin er með lægra CO2 gildi en 1,4 lítra vélin og þannig búinn er bíllinn því aðeins örlítið dýrari, A4 2,0 kostar aðeins 380.000 kr í viðbót. Grunnverð á Mercedes-Benz C-línu er algjörlega á pari eða 6.330.000 kr en samkvæmt heimasíðu BL er ekki lengur boðið uppá BMW 3-línu í verðlista, hverju sem það sætir.

 

Þaðer ágætis pláss fyrir fjóra í bílnum en fimmti farþeginn má ekki verastórvaxinn.

Tækniupplýsingar

Verð: 6.350.000 kr.

Vél: 1395 rsm 4ra strokkameð forþjöppu

Hestöfl: 150 við 6000 sn.

Newtonmetrar: 250 við 1500-3500 sn.

0-100k á klst: 8,7 sek.

Hámarkshraði: 210 km

CO2: 126 g/km

Eiginþyngd: 1375 kg

L/B/H: 4726/1842/1427 mm

Eyðsla bl. ak: 5,3 l/100 km

Ljósmyndir: Tryggvi Þormóðsson

Hér kemur auglýsing

Einhver linkur