Njáll Gunnlaugsson

billinn@billinn.is

Bíllinn sem faðmar beygjurnar

Það hlýtur að vera eitthvað sérstakt við bíl sem hefur jafn langt nafn og þessi nýjasta afurð ítalska framleiðandans. Það reyndist svo sannarlega rétt þegar billinn.is fékk hann til prófunar, því það er langt síðan einhver einstakur bíll með verðmiða talsvert undir 10 milljónir hefur vakið jafn mikla athygli í reynsluakstri eins og þessi. Allir þeir sem höfðu eitthvað vit á bílum vissu um leið hvaða bíll var hér á ferðinni og gilti þá einu hvort um var að ræða sextán ára strákinn í næsta húsi eða Alfa Romeo sérfræðinginn í Garðabænum. Giulia Veloce er nefnilega bíll sem fær alla bílaáhugamenn til að snúa sér við þegar ekið er framhjá.

Veloce er nafn sem Alfa Romeo hefur notað síðan 1956 fyrir sérlega sportlega bíla.

Grenjar á brautarkeyrslu

Veloce er nafn sem Alfa Romeo hefur notað síðan 1956 og þá fyrst með Giulietta bílnum og er notað við bíla sem þykja einstaklega sportlegir og sannarlega er hann sportlegur í akstri. Stýrið snýst bara tvo hringi meðan flestir bílar geta snúið stýrinu í rúmlega þrjá og það segir sitt um sportlega eiginleika bílsins. Það svarar öllum viðbrögðum ökumanns á augnabliki og ökumaðurinn fær strax góða tilfinningu fyrir því. Gripið er einstaklega gott að framan og það er eins og framendinn faðmi beygjurnar. Þegar gefið er í fer meira afl til afturhjólanna og því losar hann afturendann auðveldlega út úr beygjum. Það kemur þó ekki að sök því að spólvörnin grípur inní á hárréttu andartaki. Þar komum við líka að galla sem vert er að nefna, sem er að ekki er hægt að slökkva á spólvörninni sýnist manni svo. Á bíl sem þessum sem bókstaflega grenjar eftir brautarkeyrslu væri skemmtilegt að bjóða uppá þann möguleika. Í raun og veru er grip bílsins einstakt að framan sem þýðir að maður getur farið snemma á gjöfina í beygjum og leyft honum að dansa aðeins.

Átján tommu Veloce felgur og rauðar bremsudælur gefa enn sportlegra yfirbragð.

Aðeins 5,2 í hundraðið

Vélin, sem er öll úr áli, er sama tveggja lítra bensínvélin og í öðrum Alfa Romeo bílum en fær meðhöndlun sem tryggir henni meira afl og tog. Í raun og veru er sama vélin í Stelvio sportjeppanum en hún skilar 276 hestöflum vip 5.250 sn á mín. Það þýrðir að fjórhjóladrifinn bíllinn er aðeins 5,2 sekúndur í hundraðið með átta þrepa sjálfskiptingunni. Eins og í Stelvio eru akstursstillingarnar þrjár, d, n og a. Í a stillingunni (all weather) er bíllinn í nokkurs konar vetrarham og er þá fljótari að skipta sér af í spólvörn eða skrikvörn. Í n stillingunni (natural) er bíllinn í sparakstursham og í d stillingunni (dynamic) er stýri, bensíngjöf og bremsur fljótari að taka við sér. Auk þess eru skiptingarnar sneggri og fjöðrunin stífari og spólvörnin lengur að koma inn þótt það slökkni ekki alveg á henni eins og áður var sagt.

Giulia Veloce er fallegur að inna með leðri á mörgum slitflötum og flæðandi línum.

Fallegur að innan sem utan

Jafn verklegur og Giulia Veloce er að utan er útlitið ekki síðri innandyra og greinilega talsvert lagt í efnisval. Það er kostur hversu margir slitfletir eru leðurklæddir í stað glansandi fleta sem annars fyllast af fingraförum fljótlega. Starthnappurinn er staðsettur vinstra megin í stýrinu og álpedalarnir setja sportlegan svip innandyra. Flæðandi línur frá mælaborði yfir 8,8 tommu litaskjáinn í miðju mælaborðsins gefa innréttingunni fallegt yfirbragð. Staðalbúnaður er í betra lagi, með tvöfaldri miðstöð, rafstilltum framsætum, sjálfvirkum rúðuþurrkum og aðalljósum og átta hátalara hljómkerfi. Að utan eru 18 tommu Veloce felgur staðalbúnaður sem sýna vel rauðar bremsudælur með Alfa Romeo merkingum, sem reyndar eru aukabúnaður.

Í dynamic stillingunni er bíllinn í nokkurs konar brautarham og losar afturendann út úr beygjum ef gefið er snögglega inn, án þess þó að sleppa alveg takinu af spólvörninni.

Hverjir eru keppinautarnir?

En við hvern keppir Giulia Veloce? Þegar tölur um afl og upptak eru skoðaðar koma bílar eins og Audi S4 eða BMW 330i M Sport til greina sem keppinautar en Audi bíllinn er reyndar með sex strokka vél og nokkuð dýrari. BMW 330i M Sport er einnig tveggja lítra en aðeins 252 hestöfl og afturhjóladrifin, en því miður er ekkert verð á heimasíðu BL varðandi þann bíl. Annar keppinautur væri líka Jagúar XE í R-Sport útgáfu en fjögurra strokka bensínvélin í þeim bíl er 250 hestöfl. Sá bíll er einnig aðeins með afturhjóladrifi og kostar þannig 7.290.000 kr en Giulia Veloce með fjórhjóladrifi kostar 8.290.000 kr. Ef Giulia er tekinn aðeins með afturhjóladrifi er vélin aðeins 150 hestöfl og þannig er verðmiðinn aðeins 5.990.000 kr.

Tækniupplýsingar

Verð: 8.290.000 kr.

Vél: 1995 rsm 4ra strokka með forþjöppu

Hestöfl: 276 við 5250 sn.

Newtonmetrar: 400 við 2250 sn.

0-100 k á klst: 5,2 sek.

Hámarkshraði: 240 km

CO2: 152 g/km

Eigin þyngd: 1530 kg

L/B/H 4643/1860/1436 mm

Eyðsla bl ak: 6,4 l/100 km

Ljósmyndir: Tryggvi Þormóðsson

Hér kemur auglýsing

Einhver linkur