Vetrarfundur Bílgreinasambandsins haldinn í nýjum höfuðstöðvum Kia

Almenningi boðið að skoða nýjar höfuðstöðvar Kia að Krókhálsi 13 á laugardaginn

Vetrarfundur BGS er árlegur viðburður þar sem félagar og vinir í bílgreininni hittast og eiga saman ánægjulega stund. Síðasti fundur átti að fara fram síðasta haust en ákveðið var að færa hann yfir á þetta á, og að þessu var komið saman hjá Bílaumboðinu Öskju á fimmtudagskvöldið 10. janúar, í nýjum höfuðstöðvum Kia að Krókhálsi 13.

Bílaumboðið Askja tók vel á móti gestum fimmtudaginn 10. janúar kl: 18:00 í nýjum húsakynnum Kia og bauð upp á létta drykki og veitingar.

María Jóna Magnúsdóttir framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins ávarpaði gesti og skýrði frá því helsta sem væri efst á baugi í starfsemi sambandsins. Því næst ávarpaði Jón Trausti Ólafsson forstjóri Öskju, sem jafnframt er formaður Bílgreinasambandsins, gestina og lýsti þessu nýja og glæsilega húsi sem verið er að taka í notkun fyrir starfsemi Kia. Að því loknu bauð hann öllum viðstöddum upp á skoðunarferð um húsið, þar sem gafst kostur á að skoða nýtt og fullkomnu bílaverkstæði með 18 lyftum til viðgerða, stóra og fullkomna varahlutaaðstöðu, þjónustumóttöku, sýningarsal og glæsilega starfsmannaaðstöðu.

María Jóna Magnúsdóttir framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins ávarpaði viðstadda og gerði grein fyrir því helsta sem væri á döfinni hjá Bílgreinasambandinu.

„Kia-húsið“ opið fyrir almenning á laugardaginn

Núna á laugardaginn, 12. Janúar, flytur Askja, sölu og þjónustu sína fyrir Kia bíla í nýtt og glæsilegt, sérhannað húsnæði að Krókhálsi 13. Sérstök opnunarhátíð verður haldin á milli klukkan 10-16.

Síðustu ár hefur Kia verið á Krókhálsi 11 þar sem Bílaumboðið Askja er til húsa. Þar er einnig að finna söludeild fólksbíla Mercedes-Benz sem fá nú enn meira pláss og verkstæði fyrir Mercedes-Benz fólks- og atvinnubifreiðar. Askja er því með þessu að aðskilja vörumerkin sín tvö bæði í sölu og þjónustu. „Síðustu 3 ár hefur Kia verið annað mest selda bílamerkið á Íslandi og hefur náð alveg ótrúlegum árangri bæði hér heima og erlendis. Þetta hefur verið lengi í deiglunni og orðið tímabært að gefa Kia meira svigrúm sem og Mercedes-Benz, en bæði merkin hafa náð góðum árangri hér á landi,“ segir Jón Trausti Ólafsson, framkvæmdastjóri Öskju.

Jón Trausti Ólafsson forstjóri Öskju, sem jafnframt er formaður Bílgreinasambandsins, ávarpaði gestina og lýsti þessu nýja og glæsilega húsi sem verið er að taka í notkun fyrir starfsemi Kia.
Nýjar höfuðstöðvar Kia að Krókhálsi 13 eru sérhannaðar að þörfum bílaumboðsins. Áhæð eru sýningarsalir og móttaka, en á neðri hæð er rúmgott verkstæði með 18 vinnustöðvum – Ljósmynd Kia á Íslandi
Húsið er hannað í samráði við helstu þarfir bílaumboðs, og samkvæmt hugmyndum frá Kia - Ljósmynd Kia á Íslandi.

Fullkomið þjónustusetur fyrir Kia-bíla

Nýja Kia húsið er um 4.000 fermetrar að stærð en þar má finna aðstöðu fyrir glæsilegan sýningarsal fyrir nýja bíla, forgreiningu, söluskoðanir, hraðþjónustu og fullkomið bílaverkstæði með 18 vinnustöðvum. Húsið er sérhannað sérstaklega með tilliti til bílaumboðs. Það stendur svo til að hafa 30 rafbílastæði í kringum húsið fyrir viðskiptavini og starfsfólk, enda er Kia leiðandi í sölu rafbíla og með í dag 7 mismunandi gerðir rafbíla, tengiltvinnbíla og tvinnbíla í boði í sinni vörulínu.  Innan fimm ára mun Kia hafa 16 mismunandi gerðir rafbíla í sinni vörulínu. Umhverfissjónarmið voru höfð í huga og má nefna að öll raforkunotkun hússins er vottuð Græna Ljósinu frá Orkusölunni sem er staðfest sem endurnýjanleg með upprunavottorðum. Þá hafa Askja og Reykjavíkurborg gengið frá samkomulagi um tilraunaverkefni til 2ja ára um sérstaka settjörn sem staðsett verður í borgarlandinu neðan við húsið og er hugsuð til að tryggja að allt regnvatn sem fellur á bílastæði sé hreint áður en það fer aftur út í jarðveginn. Þetta er verkefni verður unnið í samvinnu Öskju og Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur.

Það er vítt til veggja og hátt til lofts á nýja verkstæðinu fyrir bíla Kia á neðri hæðinni, enda eru þarna stæði fyrir samtals 18 bíla á lyftum í einu.
Sýningarsaluruinn er með pláss fyrir 15 bíla í einu, bjartur og rúmgóður, enda fór vel um gestina á haustfundi BGS.

Mun stórbæta aðstöðuna

Meðal spennandi nýjunga fyrir viðskiptavini eru bílaþrif, hjólbarðaþjónusta og hjólbarðahótel, hraðþjónusta, glerhúðunarmeðferð fyrir lakk og framrúðuskipti. Sérstök tilboð verða á nýjum bílum og þjónustu fyrir viðskiptavini í tengslum við opnunina.

,,Þetta nýja hús mun stórbæta aðstöðuna og þjónustuna fyrir viðskiptavini Kia og starfsfólk Öskju. Við hjá Öskju höfum því nú þrjá sýningarsali og getum sýnt fleiri Kia og Mercedes-Benz fólks- og atvinnubíla í aðskildum húsum. Þetta er orðið tímabært hjá okkur enda fyrirtækið stækkað undanfarin ár og árangur beggja okkar vörumerkja hefur verið góður," segir Jón Trausti.

Góðir nángrannar – Jón Traust og Benedikt Eyjólfsson hjá Bílabúð Benna eru hér góðir saman, enda eru fyrirtækin þeirra saman þarna við Krókhálsinn.
Gestir á þessum vetrafundi Bílgreinasambandsins nutu góðar veitinga í nýjum höfuðstöðvum Kia.

Kia hefur verið eitt mest vaxandi bílamerkið á Íslandi síðustu ár og er nú þriðja árið í röð annað mest selda bílamerkið, þar sem markaðshlutdeild KIA var yfir 11%. Kia hefur því heldur betur stimplað sig inn hjá Íslendingum undanfarin ár, og hefur 7 ára verksmiðjuábyrgð KIA þar haft mikið að segja. Að auki hefur Kia verið í efsta sæti í hinni virtu áreiðanleikakönnun JD Power síðustu fjögur ár sem mikill heiður. Þá hefur Kia einnig fengið fjölmörg alþjóðleg hönnunarverðlaun fyrir bíla sína undanfarin ár m.a. margoft hin eftirsóttu Red Dot verðlaun.

Aðstaða til geymslu á varahlutum er til fyrirmyndar.
Ljósmyndir: Jóhannes Reykdal