Verða rafbílar ódýrari kostur eftir örfá ár?

Þótt að rafbíllinn hafi á sínum fyrsta áratug á almennum markaði náð hylli fólks sem hefur eitthvað fé á milli handanna eru góðar líkur á að hann geti orðið fyrsti kostur þeirra sem vilja ódýran bíl áður en langt um líður. Ný rannsókn frá BloombergNEF fréttaveitunni heldur því fram að rafmagnsbílar verði ódýrari kostur en bílar með brunahreyflum strax árið 2022.

Í byrjun áratugsins voru rafmagnsbílar aðeins 12.500 talsins en á síðasta ári voru meira en tvær milljónir rafbíla seldir á heimsvísu.

Meira en fimm milljón rafbíla eru nú á götunum og rafhlöðurnar, sem til skamms tíma voru það sem gerðu bílana dýra, hafa lækkað með fleiri framleiddum bílum. Fyrir nokkrum árum voru rafhlöðurnar helmingur af framleiðsluverði bílsins en eru aðeins þriðjungur í dag. Áætlað er að sú tala lækki niður í 20% árið 2025. Það sem getur hraðað þeirri þróun er notkun Lithium rafhlaða í önnur faratæki eins og báta, vinnuvélar og mótorhjól svo eitthvað sé nefnt.