Valkyrjan mun standa undir nafni

Aston Martin hefur tilkynnt um tækniupplýsingar Valkyrie ofurbílsins og það er óhætt að segja að kaupendum þeirra 150 bíla sem seldir verða mun ekki leiðast mikið. Heildar hestaflatala Valkyrjunnar er hvorki meira né minna en 1.160 hestöfl og togið 900 Newtonmetrar, geri aðrir betur. Bíllinn er einnig með rafmótor sem bætir þessum 160 hestöflum við 1000 hestafla V12 vélina sem fer í rauða strikið við 11.100 snúninga.

Rafmótorinn er hannaður í samvinnu við Integral Powertrain Ltd og Rimac, en V12 vélin í samvinnu við Cosworth og Red Bull Racing og byggir á tækni úr Formúlu eitt. Margir innri hlutar vélarinnar eru tilskornir úr heilum einingum, eins og til dæmis stimplar og ásar, en það mun auka endingu vélarinnar.

Sums staðar er notast við títaníum til að minnka þyngdina enda er vélin sjálf aðeins 206 kíló. Vélin er hluti grindarinnar og heldur bílnum saman að aftanverðu ef svo má segja. Gírkassinn er sérsmíðaður fyrir þennan bíl af Red Bull Racing og að sögn forstjóra Aston Martin, Andy Palmer, mun Valkyrjan geta hringað Silverstone brautina hraðar en formúlubíll.