Toyota frumsýnir nýjan RAV4

Laugardaginn 5. janúar verður frumsýning á nýjum RAV4 hjá viðurkenndum söluaðilum Toyota í Kauptúni, Reykjanesbæ, á Selfossi og Akureyri. Opið verður frá kl. 12 – 16 og þá geta landsmenn séð nýjan og glæsilegan RAV4 fyrstir Evrópubúa, sem er sannarlega vitnisburður um velgengni Toyota á íslenskum markaði.

Fyrsti RAV4 kom á markað 1994 og var hann fyrstur til að sameina kosti jeppa og fólksbíls í einn pakka. Nú kemur fram ný kynslóð frumkvöðulsins, nýr RAV4 alveg frá grunni.

Útlit bílsins hefur vakið mikla athygli og er bíllinn gjörbreyttur að sjá og skartar hann öflugri og fágaðri sportjeppahönnun. Inni í bílnum tekur við vel hannað umhverfi bæði fyrir ökumann og farþega. Farþegarými hefur verið stækkað og farangursrýmið líka. Þar má meðal annars auðveldlega koma fyrir stóru hjóli án þess að taka það í sundur.

RAV4 er fáanlegur í bæði bensín- og tvinnútfærslum. Ný bensínvél skilar 173 hestöflum og ný 2.5l tvinnvél skilar 222 hestöflum.

Toyota Safety Sense öryggiskerfið er staðalbúnaður í RAV4 en það hjálpar við að skynja önnur ökutæki, hjólreiðafólk og gangandi vegfarendur í umhverfinu. RAV4 er einnig búinn akgreinaskynjara og sjálfvirkum hraðastilli.

RAV4 kemur nú með 7 ára ábyrgð og kostar frá 5.090.000 kr.