Tólf stykki Bentley Bentayga á Íslandi

Eflaust hafa einhverjir bílaáhugamenn og konur tekið eftir Bentley Bentayga jeppunum sem eru nú á ferðinni um suðurhluta Íslands. Hingað eru komnir 12 slíkir lúxusjeppar á vegum Samuelson Wylie kynningarfyrirtækisins en það fyrirtæki sérhlæfir sig í kynningum á lúxusbílum meðal annars og vinnur fyrir merki eins og Porsche, McLaren og Mercedes-Benz. Tengiliður þeirra hér á Íslandi er Ingólfur Stefánsson, sem séð hefur um ferðir fyrir Land Rover og Jagúar svo eitthvað sé nefnt. Billinn.is sló á þráðinn til Ingólfs til að forvitnast meira um ferðir þeirra. "Við erum búnir að vera á ferðinni í fimm daga í aldeilis frábærum aðstæðum og veðri" sagði Ingólfur. "Fyrsti hópurinn eru Bentley eigendur og allir eru hæstánægðir enda náðum við meðal annars að aka með þá upp Kaldadal og Jökulháls, uppá klakann á jöklinum.

Framundan eru tvær ferðir í viðbót, annars vegar með ljósmyndara frá tímaritum og svo bílablaðamenn í kjölfarið." Bílarnir sem hér eru koma í mismunandi útfærlum en W12 bensínvélin í Bentayga er fullorðins. Sex lítra vélin skilar 600 hestöflum og 900 Newtonmetrum og tekur bílinn úr 0 í 100 km á klst á aðeins fjórum sekúndum. Hámarkshraðinn er 301 km á klst svo að þetta er einn hraðskreiðasti jeppi sem hægt er að fá frá verksmiðju. Billinn.is mun fá tækifæri til að skoða bílinn aðeins betur á næstu dögum svo fylgist vel með.

Myndir: © Ingólfur Stefánsson, Ben Samuelson