Tesla Model Y frumsýndur á þessu ári

Það nýjasta að frétta úr heimi rafbíla er það að Elon Musk hefur gefið grænt ljós á framleiðslu Model Y rafjepplingsins og líklega er stutt í frumsýningu hans því að framleiðsla mun hefjast snemma á næsta ári. Þetta er fimmti framleiðslubíll Tesla og er hann nokkurs konar jepplingsútgáfa af Model 3. Þess vegna er ekkert ólíklegt að hann verði einnig með vængjahurðunum eins og Model X. Það má einnig búast við svipuðum afkastatölum, kringum 400 km drægni og allt að 3,5 sekúndur í hundraðið. Þar sem að Tesla ætlar að kynna nýjan sjálfkeyrandi búnað á þessu ári er líklegt að þessi bíll verði þannig búinn. Model Y verður framleiddur í nýrri ofurverksmiðju Tesla í Shanghai í Kína en einnig verður hann mögulega framleiddur í Evrópu. Verksmiðjur Tesla í Bandaríkjunum ráða allavega ekki við að bæta við framleiðslu sína í bili.

Tesla Model Y