Sumarbíllinn

Fréttir síðustu vikna hafa verið uppfullar af veðrinu enda hefur það verið óvenjulegt með endalausu sólskini svo maður fyllist löngun til að fara út, og helst út úr bænum (en ekki út úr landinu eins og síðasta sumar). Hvort sem þessi einmunablíða tengist heimsendaspám um hlýnun jarðar eða ekki þá fögnuðum við á suðvesturhorninu þessari sjaldgæfu sumarbyrjun og fannst sem við yrðum að fara eitthvað til að njóta hennar. En til að fara eitthvað þarf farartæki. Nema við látum gönguskóna duga en oftar en ekki viljum við samt aka þeim eitthvert út í náttúruna áður en við reimum þá á okkur.

Hvernig bíla viljum við kaupa?
Auglýsendur eru ósparir á ráðleggingar um hvað við ættum að kaupa til að geta farið og notið blíðunnar sem best og á okkur dynja öllum stundum og úr öllum áttum ábendingum um útigrill og garðhúsgögn og ferðavörur alls slags. Þar með talið bíla. En hvernig bíla finnst þeim helst að við eigum að kaupa til að fá notið sumarsins? Kem að því síðar.

Ég las nýlega í Fréttablaðinu pistil Umhverfisráðherra, sem, eins og stundum áður, fjallaði um nauðsyn þess að umhverfisvænka ferðavenjur okkar með að breyta um bíla. Kannski ekki akkúrat núna í sumarbyrjun en í náinni framtíð. Svo ég fór að spekulera: Hvernig skyldu ráðleggingar stjórnvalda um bílaval ríma við tillögur bílaauglýsinganna um hvernig bíla við ættum að nota? Í leit að einhverri sýn á það greip ég úr pappírsendurvinnslubunkanum í eldhúsinu Fréttablöð tíu fyrstu daga júnímánaðar og leitaði uppi allar auglýsingar um nýja bíla. Ég fann tuttugu. Og eins og títt er með auglýsingar (það ku vera einhver fræði á bak við það) þá má alltaf greina megináherslu í boðskap hverrar og einnar. Svona slagorð eiginlega, sem dregur fram eitt atriði, sem á að vega þyngst í að vekja athygli lesandans á gripnum sem auglýstur er og gera hann að álitlegum kosti. Í þrem þessara auglýsinga var áherslupunkturinn “ódýr, sparneytinn”. Sem sagt, skynsamlegur valkostur til að ferja þig milli staða frá degi til dags eins og meginhlutverk einkabílsins er jú. Í sex auglýsinganna var áherslan á umhverfisvænsku, með vísan til möguleika umræddra bíla til að nota eitthvað annað en benslín eða olíu sem aflgjafa að hluta eða öllu leyti. Þá voru ellefu auglýsingar eftir. “Alvöru jeppi, harðjaxl, fjórhjóladrifinn, jeppi, jeppi, …”.

Ja, hver …..! Þriðjungur auglýsinganna fellur að áskorun stjórnvalda, meira en helmingur segir bara “fuck it”, veljum eitthvað öflugt og umfangsmikið svo við getum farið út í sumarið með allt sem okkur dettur í hug með okkur, hvert sem okkur dettur í hug og hvenær sem okkur langar.

Nú hvarflar ekki að mér að áherslur auglýsenda endurspegli raunvilja almennings. Markmið auglýsinga er jú að reyna að móta hann og breyta og aðlaga að löngunum seljenda. Ekki hef ég heldur hugmynd um að hve miklu marki almenningur er sammála ráðleggingum stjórnalda um hvernig bíla sé best að við notum, enda miða þær ábendingar líka að því að móta og breyta vilja fólks. Þaðan af síður veit ég hvað hinn margnefndi almenningur vill sjálfur og trúlega veit það enginn, jafnvel ekki hann sjálfur. Nema hvað hann vill bara komast út í sólina. Eitthvert út í náttúruna eða í sumarbústaðinn eða heimsækja vini og vandamenn í öðrum landshlutum til að geta grillað með þeim á pallinum eða… Hann vill gjarna fara eitthvert. Og þó að rúmgóði, öflugi fjórhjóladrifni bíllinn kunni að eiga einhverja sök á hlýnun jarðar, sem hugsanlega tengist þessari óvenju góðu sumarbyrjun, þá langar hann ekkert að velta því fyrir sér. Hann horfir bara út um gluggann á blíðviðrið, fréttirnar með myndum af hve allt er æðislegt einhvers staðar í þessu frábæra veðri.

Þegar upp er staðið ræður líklega alltaf mestu um val okkar hvað okkur langar mest. Sem setur umræðu þessa í hring; það eru alltaf einhverjir að reyna að segja okkur hvað okkur langar (eða alla vega ætti að langa).

Svo hvað gerir Íslendingurinn þá í góða veðrinu? Lætur undan gylliboðum bílaauglýsinganna og velur sér eitthvað, sem lofar gleði í blíðunni? Hlustar samviskubitinn yfir menguninni í heiminum á stjórnvöld og velur umhverfisvænsta kostinn? Eða hendir bara tjaldinu, gönguskónum og ferðagrillinu inn í sama bíl og síðast og hættir að hugsa um þetta meðan hann ekur út í sólina til að njóta? Það mun þykkna upp aftur einhvern daginn. Við tökumst bara á við samviskubitið yfir bensín/olíubrennslunni seinna.