Stórir bílar og litlir

Þegar ég man fyrst eftir mér fyrir ríflega hálfri öld átti afi minn gamlan Willisjeppa. Svo, þegar ég var ennþá lítill keypti hann Bronco af fyrstu kynslóð. Miklu stærri og rúmbetri bíl. Minnsti jeppinn sem Ford framleiðir í dag er Explorer. Foreldrar mínir áttu þegar ég fékk bílpróf Ford Cortina árg 1974. Beinn arftaki hans í dag er Ford Mondeo (með Ford Sierra í millitíðinni). 1974 kom fyrsta kynslóð VW Golf á markað. Hann er framleiddur enn í dag. Að lokum: Stærsti bíllinn í þorpinu hvar ég ólst upp var Plymouth Fury árgerð 1970. Hann var RISASTÓR.

Gamall Jeep Willys herjeppi.
Plymouth Fury árgerð 1970.
Hvert er ég að fara með þessum sögumolum? Jú, bílar hafa stækkað og þyngst jafnt og þétt frá þessum tíma. Broncoinn er jafnstór og Suzuki Jimny dagsins í dag. Explorerinn er heilum metra lengir og 700 kg þyngri. Cortinan foreldra minna er 60 cm styttri en Mondeoinn og 600 kg léttari. Golf nútímans er 56 cm lengri en fyrsta kynslóðin og 550 kg þyngri. Áðurnefndur Plymouth Fury var rétt 5,5 metra langur og vóg 1600 kg. Varla risavaxinn í dag þó stór sé.

Ég gæti hæglega talið upp fjölda annarra bíla sem eins hefur farið með, en læt þessi dæmi nægja. Það, sem ég er að reyna að draga fram er að sýn okkar á hvað sé stór bíll eða lítill hefur hægt og rólega breyst í tímans rás, enda er ég að tala um 40-50 ára þróun. Spurningin er, hvernig stendur á þessu? Í dag erum við ákaflega upptekin af að hugsa um litla, netta, létta, sparneytna og umhverfisvæna bíla. Það er vissulega staðreynd að nútímabíllinn, þrátt fyrir að hafa vaxið og þyngst með árunum (svona rétt eins og gerist með okkur mannfólkið) er hann sparneytnari og umhverfisvænni en forverarnir frá því fyrir hálfri öld eða svo, þökk sé tækniframförum í vélasmíð. En, (og ég er ekki verkfræðingur og því hef ég sennilega ekkert vit á þessu) þá er svolítið skemmtilegt að velta fyrir sér hvernig eyðslu- og mengunarmælingar bíla litu út ef með nútíma véltækni þeir væru jafn léttir og á þeim tíma. Vissulega eru til skýringar á þessari þyngdaraukningu bíla, sterkbyggðari og öruggari, meiri öryggisbúnaður, alls lags lúxusaukahlutir, en út frá nútímakröfunni um umhverfisvænsku væri kannski ráð að íhuga hvort hægt væri að hverfa til baka hvað varðar stærð og þyngd og fylla slíkan bíl nútíma véltækni með tölvustýringunum og öllu því. Þá fengjum við líklega bíla sem eyddu alveg hreint ótrúlega litlu eldsneyti og menguðu þar af leiðandi svo lítið að hörðustu umhverfisverndarsinnar sæu vart ástæðu til að agnúast við þeim.

Bara svona smá pæling um hvernig þróunin vinnur, þegar upp er staðið, gegn markmiðunum.

Fiat Abarth