Smíðar Toyota sportbíla?

Þann 13. maí síðast liðinn birtist hér á billinn.is grein Jóhannesar Reykdal sem rekur sögu Toyota Supra í tilefni þess að nú er ný Supra komin á markað. Hér er á ferðinni hreinræktaður sportbíll, en allt um sögu Suprunnar má lesa í áðurnefndri grein.

En hvað er Toyota að gera með að smíða sportbíl? Eru þeir ekki bara í einhverjum leiðinlegum fjölskyldubílum? Að vísu smíða þeir mest af slíku og fæstir held ég tengja merki Toyota við sportbíla. Þeir hafa þó gert þetta nokkrum sinnum áður. Ekki kannski oft, en þó má telja eina átta sportbíla í sögu þessa eins stærsta bílaframleiðanda í heimi.

Nýi Toyota Supra bíllinn árgerð 2020.
Og þó sportbílasmíð hafi aldrei verið aðaláhugamál Toyota og engir þeirra selst í verulegu magni, nema Celica og Supra, má greina metnað í hverjum og einum þessara átta gerða. Sumir þeirra teljast jafnvel hafa verið harla góðir á sínum tíma.

Að vísu, eins og allir vita er skilgreiningin á hvað sé sportbíll mjög á reiki en ef rekja á sportbílasögu Toyota er einfaldast að nota þeirra eigið mat á hvað sé sportbíll og þar með hvað úr framleiðslusögu Toyota beri að líta á sem slíka.

Listinn yfir Toyota sportbíla er sem fyrr sagði ekki langur.  Hér er hann:

Sports 800

  • 1965-1969 tveggja sæta 800 cc afturhjóladrif

2000 GT

  • 1967-1970. Smíðaður í samvinnu við Yamaha. Afturhjóladrifinn með 2 ltr sex cyl línuvél

Celica

  • 1970-2006. Breyttist mikið á líftíma sínum og spannar heilar 7 kynslóðir. Í upphafi með 1,4 ltr 4 cyl vél sem óx upp í 2,2 ltr í nokkrum skrefum. Var afturhjóladrifinn fram að 4. kynslóð 1985 þegar hann varð framdrifinn með þverstæðri vél.

Supra

  • 1978-2002. Framan af nefndur Celica Supra, en Supra varð síðar að sjálfstæðu módeli þegar Celican varð framhjóladrifin. Skartaði ýmsum vélarstærðum en alltaf afturhjóladrifinn með vélina langsum framí

Corolla AE86

  • 1983-1987.  Átti ekkert sameiginlegt með venjulegum fjölskylduCorollum nema nafnið. Var með 1,6 ltr 4 cyl vél langstæða framí og afturhjóladrif

MR2

  • 1984-2007 1,5 ltr þverstæð miðjuvél, afturhjóladrif

GT86

  • 2011- enn í framleiðslu. Smíðaður í samvinnu við Subaru (og því stundum kallaður ToyBaru í gríni) 2,0 ltr vél frá Subaru, afturhjóladrif

Supra

  • 2019- enginn veit ennþá. Smíðaður í samvinnu við BMW. 3,0 ltr 6 cyl línuvél (frá BMW) og afturhjóladrif.

Gamlir þverhausar eins og ég líta svo á að alvöru sportbíll verði að vera afturhjóladrifinn, helst með vélina framí, þó miðjuvélar séu líka gjaldgengar og eiga helst að vera tveggja sæta. Samþykkjum aftursæti svo fremi að það sé eiginlega ekki hægt að sitja í því, og verðum víst að samþykkja Porsche 911 þó vélin í honum sé á röngum stað. Og þegar við lítum yfir þetta örstutta yfirlit yfir sportbíla frá Toyota í gegn um tíðina þá hafa þeir að mestu verið trúir þessum kröfum. Celican er sá eini sem vék frá afturdrifskröfunni á miðri æfi og MR2 er sá eini sem vék frá kröfunni um vélina framí. Það má því segja að þegar Toyota hefur ákveðið að smíða sportbíl þá er formúlunni fylgt en ekki bara látið nægja að hengja “sport-eitthvað” við gerðarheitið. Og í sumum tilfellum hafa þeir virkilega reynt að breyta heiminum svolítið í leiðinni, eða alla vega ekki fetað öruggustu leiðina.

Ég læt Sports 800 liggja milli hluta

Hann var ákaflega sérjapanskt fyrirbæri og barst aldrei til okkar heiimshluta. 2000 GT var bíll sem sýndi verulegan metnað til að gera vel. Tæknilega mjög fullkominn og skartaði öllu því besta á þeim tíma, en, það voru aldrei smíðuð nema þrjúþúsundogeitthvað eintök af honum svo hann, eins og margur annar bíllinn lifir í minningunni fyrst og fremst sem tilraun, sem var vel heppnuð, en náði aldrei flugi. Segja má að Datsun, nú Nissan, hafi leikið sama leik með 240Z frá sama tíma, sem náði mikilli hylli og lifði lengi. 2000GT hefði verðskuldað slíkan árangur, en svo varð aldrei.

Celican fór aðra leið. Þetta var ódýr, ekkert sérlega aflmikill bíll, laglegur á að líta og vakti athygli. Og seldist. Supran, afsprengi Celicunnar hélt síðar inn á aðrar brautir, stækkaði, varð aflmeiri og þróaðist yfir í meiri Cruser en sportbíl. Sömu leið fór áðurnefndur Datsun 240Z og fylgdust þessir landar að á þeirri leið. Supran snéri síðar aftur til upprunans og varð aftur að alvöru sportbíl þar til framleiðslu hennar var hætt. En nú hefur hún gengið aftur sem alvöru sportbíll.

Corolla AE 86 er sérkennilegt fyrirbæri

Á þeim tíma sem nær allir bílar voru orðnir framhjóladrifnir sendi Toyota okkur “gamaldags” leikfang, sem þjónaði jafnt sem fjölskyldubíll. Líktist hverri annarri Corollu þessa tíma fyrir utan að vera með vélina í fremri endanum og drifið að aftan. Þetta var eiginlega afturhvarf til þess sem var að hverfa. Svona eins og þrjóskuleg tilraun til að halda lífi í driflínu sem flest allir voru að yfirgefa. Sem gerði hann að hreinræktuðum sportbíl þó svo að yfirbyggingin gerði sitt besta til að fela það.

Svo kemur MR2 eins og skrattinn úr sauðarleggnum

Pínulítill miðjumótorsbíll. Fiat átti að vísu einn slíkan í sínum katalógum, X 1/9, en enginn annar framleiðandi bauð nokkuð  í líkingu við þetta. Aldrei var MR2 smíðaður í miklu magni en hann hélt lífi æði lengi, líklega helst fyrir að vera einn þessarar gerðar og án samkeppni (Fiatarnir voru löngu horfnir). Hér var verið að prófa eitthvað nýtt.

En eftir 1984, þegar MR2 kom á markað sást ekki nýr sportbíll frá Toyota í meira en 25 ár. Þrátt fyrir að hafa fært okkur nokkra áhugaverða af og til í gegnum tíðina er eins og áhuginn á sportbílum hafi slokknað á þeim bæ.  Kannski færðist öll athyglin yfir á þróun Lexus og Toyota hætti að bjóða nokkuð sem kallast gæti spennandi, hver veit? En að lokum vaknaði risinn og vildi aftur leika með í sportbílalandi. Síðan það gerðist höfum við fengið tvo sportbíla frá Toyota, sem eru að vísu báðir smíðaðir í nánu samstarfi við aðra. Hinn fyrri er GT86. Sagnfræðideildin hefur greinilega haft hönd í bagga með nafngiftinni því GT-ið er vísun í 2000GT og 86 vísar í Corolla AE86, tvo af eftirminnilegri sportbílunum þeirra. GT86 er smíðaður í samvinnu við Subaru, sem framleiðir undir eigin merki sama bíl með lítillega breyttu útliti. Vélin er fengin frá Subaru, 4 cyl Boxermótor, já, ekta Subaru. Og sá síðari; nýja Supran, sem er smíðuð í samvinnu við BMW og á margt sameiginlegt með BMW Z4. Vélin er BMW vél, 6 cyl línuvél, já, ekta BMW.

Þannig er staðan í dag

Toyota hefur upp á að bjóða tvo alvöru sportbíla, báða með vélum fengnum frá öðrum. Þeir eru örugglega ekki verri fyrir það, það er ekki eins og þeir hafi leitað til einhverra aukvisa í vélasmíð og alls óvíst að þeir hefðu getað gert betur sjálfir. En það veit svo sem enginn. Og þar sem Toyota er ekki hátt skrifað merki í sportbílasögunni, þó þeir hafi átt sína spretti, þá hjálpar  það örugglega til við að selja sportbíla að geta státað af samvinnu við þessa vélasmiði. Og hver veit nema Toyota hafi lagt Subaru og BMW eitthvað gott til í leiðinni?

Alla vega: Toyota er aftur komin á kortið sem framleiðandi spennandi sportbíla. Bjóðum þá velkomna.