Skoda Oktavia er 60 ára, eða hvað?

Svo segir Hekla í auglýsingum þessa dagana. Þeir hljóta að vita þetta enda umboðsaðili Skoda hér á landi. Fyrir vikið ætla ég ekki að véfengja þessa fullyrðingu enda er ég orðinn það gamall að ég man Oktaviur úr barnæsku minni. En, ef ég man rétt þá hurfu þær af markaði þegar ég var enn á barnsaldri og birtust svo aftur þegar ég var kominn til vits og ára (alla vega ára, látum vitið liggja milli hluta).

Ekki er mikið á Wikipedia að græða við að grafa upp sögu þessa bílmerkis. Wiki frændi heldur að Octavian hafi fyrst komið fram 2006 þegar Volkswagen hóf að smíða bíl með þessu heiti. Svo, ef eitthvað er að marka auglýsingar Heklu og minni mitt þá klikkar Wikipeda algerlega. Svo ég leita á önnur mið.

Svo virðist að goggli mínu loknu að þetta merki, Octavia, eigi sér ekki sextíu ára sögu, eða hvað. Það fer náttúrulega algerlega eftir því hvernig við skilgreinum sögu. Skoda Octavia kom fyrst á markað árið 1959 og var framleidd með hóflegum breytingum fram til 1971, þegar hið fornfræga tékkneska fyrirtæki tók nýja stefnu. Þá fengum við Skoda 100 með vélina í rassinum, svona eins og Volkswagen hafði þá gert í yfir þrjátíu ár. Hann varð síðan 110, 120 og 130 og ég man ekki hvað, en var allt annar bíll og gjörsamlega óskyldur gömlu Octavíuni nema fyrir græna örvarlogóið.

Þarna er 25 ára gap í framleiðslutímanum, svo 60 ára fullyrðingin er etv svolítið hæpin.

Saga Skoda, sem er ákaflega merkileg útaf fyrir sig verður ekki rakin hér og hinir fornfrægu Austurevrópuskódar sem skreyttu götur uppvaxtar míns eru yngri kynslóðum huldir, og mörgum af hinum eldri trúlega gleymdir. Enda dó þessi bílaframleiðandi drottni sínum um það leyti sem Múrinn féll og Sovétríkin þar með sem og tangarhald þeirra á öðrum Austurevrópuríkjum og öllu sem þar gerðist og var gert.

Octavian lifnaði síðan við, eins og Wiki- sagði réttilega (svo langt sem þeirra sagnfræði nær) árið 1996 þegar VW hafði lagt undir sig þetta gamalgróna en dauða merki. Og sló í gegn. Ég nenni ekki að tíunda allt það lof og öll þau verðlaun og viðurkenningar sem (VW) Skoda Octavia hefur dregið að sér síðan, það er efni í miklu lengri grein en þessa.

Þetta hlýtur auðvitað að vekja manni vangaveltur um hvernig skuli skilgreina líftíma bílmerkja; Krefjumst við samfelldrar sögu (það er, sem áður segir langt rof í Octaviusögunni); viljum við að bíllinn sé eins í gegn um söguna (Mini í dag á ekkert skylt við upprunalega Mininn þó nafnið sé hið sama), er Toyota Corolla mest smíðaði bíll í sögunni en ekki VW Bjallan (Guð má vita hve Corollan telur margar kynslóðir, Gamla Bjallan var að mestu eins í grilljón ár), ef Ford mundi í dag bjóða bíl sem héti Model T, væri hann þá 112 ára?. Skilji hver sem hann vill.

Ég er ekki að reyna að gara lítið úr sextí ára afmæli Octaviunnar, hvað þá að dissa vini mína í Heklu. Langaði bara að benda á að aldur bílgerða má túlka á ýmsa vegu. Snýst það um framleiðslutíma sömu grunnhönnunar; líftíma gerðarheitis, burt séð frá breytingum í áranna rás, eða eitthvað annað? Túlki hver að vild. Þankafóður!

Skoda Octavia árg. 1959.