Rafbíllin Jagúar I-Pace er bíll ársins

Aldrei hefur keppnin um Bíl ársins í Evrópu verið meira spennandi og jafnari en einmitt nú, en Jagúar I-Pace vann titilinn í vikunni með minnsta mögulega mun.

Í fyrsta skipti urðu bílar jafnir að stigum og þurfti að velja á milli Jagúar I-Pace og Alpine bílsins sem báðir fengu 250 stig.

Farin var sú leið að skoða hver þeirra hefði oftar verið efstur í hverjum stigaflokki og þar hafði Jagúarinn vinninginn, í 18 skipti í stað 16 hjá Alpine. Þetta er í fyrsta skipti sem að Jagúar merkið hlýtur þessi eftirsóttu verðlaun sem dómnefnd bílablaðamanna velur ár hvert. Það var líka stutt í bílana í næstu sætum því að Kia Ceed var aðeins þremur stigum á eftir með 247 stig og Ford Focus með 235 stig. Fimmti varð svo Citroen C5 Aircross með 210 stig, sjötti Peugeot 508 með 192 stig og A-lína Mercedes-Benz rak lestina með 116 stig. Þessir sjö bílar sem voru í úrslitum komu úr hópi 38 tilnefndra bíla.