Playmobil útgáfa af Porsche Taycan rafbílnum

Playmobil mun koma með leikfangaútgáfu af Porsche Taycan rafbílnum á næstunni en bíllinn verður meðal annars í nýrri kvikmynd sem kallast Playmobil: the Movie. Myndin er væntanleg seinna á þessu ári og leikfangið þá á sama tíma en ólíkt alvöru bílnum þurfa kaupendur leikfangabílsins að kaupa sjö AAA rafhlöður sér. Þetta er ekki eini bíllinn sem er kynntur með þessum hætti í barnamynd en Chevrolet Silverado hefur sést í skotum frá nýju Lego Movie 2 myndinni. Þessi leikfangaútgáfa kostar þó aðeins minna en alvöru Taycan, eða aðeins 60 dollara á móti 90.000 dollurum. Þetta er ekki eini Playmobíllinn með Porsche merkinu, en einnig er hægt að kaupa 911 Targa, 911 GT3 Cup og Macan með hestvagn í eftirdragi.