Pininfarina Battista er öflugasti bíll heims

Ítalski bíllinn Pininfarina Battista var frumsýndur á bílasýningunni í Genf í dag og um leið tilkynnti framleiðandinn um helstu tölur bílsins. Þær sýna svo ekki verður um villst að Battista er öfluasti bíllinn á markaði í dag og sá fljótasti líka.

Með fjóra rafmótora, einn við hvert hjól, er hann samtals 1.873 hestöfl og undir tveimur sekúndum í hundraðið.

Þetta er 400 hestöflum meira en Bugatti Chiron til samanburðar. Hámarkshraðinn er líka eftirtektarverður fyrir rafmagnsbíl en Battista nær 350 km hraða á klukkustund og er aðeins 12 sekúndur í 300 km á klukkustund. Bíllinn er léttur enda með grind úr koltrefjum og áli og rafhlaðan er 120 kWh og er vökvakæld. Rafmótorarnir eru hannaðir í samvinnu við Rimac en rafhlaðan á að endast 450 km. Aðeins 150  eintök verða framleidd en bíllinn kemur á markað árið 2020.