Einu sinni ákvað eitthvert stjórnvald í Evrópu að snjallt væri að þvinga bílaframleiðendur til að draga úr koltvísýringsmengun frá bílum. Framleiðendur tóku það ráð, og stjórnvaldinu þótti það þjóðráð, að selja fólksbíla með díselvélum frekar en bensínvélum, enda sýndu mælingar að slíkar þurfa færri lítra eldsneytis við sömu notkun og blésu því frá sér minni koltvísýringi. Þetta lukkaðist vel og neytendur tóku díselbílnum fagnandi studdir af stjórnvöldum.  Einkabíllinn í Evrópu díselvæddist hratt. Íslensk stjórnvöld voru sein að stökkva á vagninn en gerðu það að lokum. Sama þróun varð því hérlendis. Með breytingum á aðflutningsgjöldum af bílum völdu sífellt fleiri díselbíla enda er eldsneytiskostnaður við rekstur þeirra mun lægri en bensínbílsins.  

Svo leið tíminn. Einn góðan veðurdag áttaði stjórnvaldið sig á því að mengunarhlið málsins var ekki alveg svona einföld. Hinn rómaði díselbíll koltvísýringsmengaði vissulega minna en bensínbíllinn, en frá honum stafaði hins vegar mun meira af annars konar subbuskap. Nú skyldi ráðist að þeim vanda. Nú skyldi frekar hvetja neytandann til kaupa á bensínbílum, en þó væri vænlegast að hann snéri sér að rafbílnum. Og neytandinn brást við, hægt að vísu.

Og nú hafa íslensk stjórnvöld boðað útrýmingu beggja. Eftir tólf ár verður okkur óheimilt að kaupa jarðefnaeldsneytisdrifna bíla. Gott og vel.

Allar leiðir til að draga úr loftmengun hljóta að vera af hinu góða og sem ábyrgur þegn hlýt ég að vera reiðubúinn að leggja mitt af mörkum, rétt eins og ég diselvæddi heimilisbílaflotann á sínum tíma að ráðum stjórnvalda. Svo ég fer að íhuga að kaupa heimilinu rafbíl. En þá birtast ljón í veginum.

Í stóra samhenginu er nefnilega engan veginn víst að rafbíllinn sé umhverfisvænni en hinir ef allt er tekið með í reikninginn. En stjórnvaldinu er alveg sama um þær vangaveltur. Með aðflutningsgjöldum af bílum, bifreiðagjöldum og eldsneytissköttum vilja þau hafa áhrif á val mitt og ég lít auðvitað til þess. Maður reynir jú að nýta krónurnar sínar sem best. Þess vegna færði ég mig úr bensínbílnum yfir í díselbílinn á sínum tíma af því að það var mér hagstæðara og svo var mér sagt það væri svo gott fyrir umhverfið. Svo koma ný skilaboð, díselbíllinn er orðinn vondur og nú skal beina sjónum frá honum. Sparnaður minn af rekstri hans undanfarin ár gufar upp í lækkuðu endursöluverði vegna þess að nú á enginn að kaupa díselbíl.

Einkabíllinn og allt sem honum tengist er drjúg tekjuleind fyrir Ríkissjóð.  Aðflutningsgjöld af bílum, ýmsar álögur á eldsneyti, bifreiðagjöld.  Tekjur af öllum þessum þáttum ráðast að einhverju leyti af því hve miklu eldsneyti bíll brennir og um leið hve miklu magni koltvísýrings hann spýr frá sér.  Rafbílar eru því undanþegnir öllum þessum álögum. Tekjur ríkissjóðs af bílum og notkun þeirra eru áætlaðar um 46 milljarðar í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2019.  Það eru margir peningar.  140.000 kr. á ári á hvern íbúa, eða 560.000 á ári fyrir fjögurra manna fjölskyldu.  47.000 á mánuði.  Nærri 1600 kr á dag.  Dálagleg kjarabót fyrir almenning að sleppi frá þeim útgjöldum.  Því hlýtur hver þenkjandi fjölskylda að stökkva á rafbílinn.  En einn er hængur á.  Mun Ríkissjóður, ef rafbíllinn ýtir jarðefnaeldsneytisbílnum alfarið af vegum og götum landsins, eins og stjórnvöld stefna að, taka tekjutapi upp á á fimmta tug milljarða árlega aðgerðalaust?  Varla.  Næsta víst má telja að með (væntanlegri) fjölgun rafbíla, og þá fækkun bensín- og díselbíla, muni koma fram nýjar álögur á rafbílinn til að mæta tekjutapinu.  Niðurfelling aðflutningsgjalda verður afnumin, sem hækkar verð þeirra umtalsvert; bifreiðagjöld á rafbíla hækka til jafns við aðra bíla; einhvers konar kílómetragjaldi verður komið á til jafns við eldsneytisgjöld o.s.frv.

Svo nú er mér vandi á höndum.  Stjórnvöld hafa boðað útlegðardóm yfir jarðefnaeldsneytisdrifnum bílum að 12 árum liðnum.  Lítt hugnast mér að láta af þeim sið er ég hef haft síðastliðna fjóra áratugi; að fara ferða minna á mínum einkabíl.  Líklega er mér skástur kostur að kaupa nýjan bensín- eða díselbíl í dag, nota hann næstu tólf árin og farga honum að þeim liðnum, enda verður hann þá verðlaus fyrir aldurs sakir.  

Og hvað átti þetta spjall að draga fram? Jú, þá einföldu staðreynd, að við, bíleigendur höfum komið stjórnvöldum upp á þann ósið að draga okkur fram og til baka með misvísandi skilaboðum og kostnaði fyrir okkur. Við erum, held ég, almennt ekki reiðubúin til að láta af einkabílanotkun, svo við erum, hálf bjargarlaus, dregin úr einum kostnaðarliðnum í annan. Hvort þetta hringl stjórnvalda mun bjarga heiminum er svo allt önnur spurning, þó það séu rökin, sem beitt er til að réttlæta hringl þetta.