Nýr Transporter verður einnig fáanlegur rafdrifinn

Volkswagen hefur látið frá sér myndir og upplýsingar um nýjan Transporter sem væntanlegur er með haustinu. Mun hann einnig koma í Caravelle og California útgáfum en nýja módelið sem er ekki ný kynslóð kallast T6.1. Uppfærslurnar eru minni háttar útlitslega en meiri undir skinninu ef svo má segja. Má þar nefna að hægt verður að fá hann rafdrifinn, en líka að hann verður með stýri með rafmagnsaðstoð.

Það þýðir einfaldlega að hægt verður að bjóða hann með búnaði eins og akreinavara, stæðisaðstoð og dráttaraðstoð. Einnig kynnir VW nýja tækni sem kallast vindhviðuaðstoð sem hjálpar ökumanninum að ná valdi á bílnum í sterkum vindhviðum, eitthvað sem gæti komið sér vel hér á landi.

Innandyra er mun meiri tæknibúnaður en áður, meðal annars snertiskjár með Apple carplay og Android Auto og díóðulýsing svo eitthvað sé nefnt. Hægt verður að fá hann með fjórum gerðum tveggja lítra dísilvélarinnar, sú öflugasta er 193 hestöfl með tvöfaldri forþjöppu, en sú gerð kemur einnig með 4Motion fjórhjóladrifi og DSG sjálfskiptingu. Rafútgáfan verður 108 hestöfl og með 38,8 kWh eða 77,6 kWh rafhlöðum, en með stærri rafhlöðunni er hann með meira en 400 km drægni.