Nýr ofurbíll frá McLaren

Myndir af nýjum ofurbíl frá McLaren hafa litið dagsins ljós en bíllinn sem kallast Speedtail er nokkuð sérstakur útlits. Hann mun taka við af F1 bílnum frá því fyrir aldamót og keppa við bíla eins og Bugatti Chiron sem þýðir að um ofur-GT bíl er að ræða. Hann er þriggja sæta með ökumann fyrir miðju sem getur stigið inní bílinn inn un hvora hurðina sem er. Bíllinn er mjög langur eða 5,2 metrar sem er svipað og lengri útgáfa S-línu Benz. Það er hreinn McLaren svipur á framenda bílsins en afturendinn skagar langt aftur. Það ásamt framhjóli með lokaðri felgu er sérhannað til að skapa sem minnsta loftmótstöðu þegar loftið flæðir aftur með bílnum. Hliðarnar eru lausar við útskot eins og hurðarhúna eða spegla. Að aftan eru flapsar eins og á flugvélum sem koma út þegar á þarf að halda til að skapa meiri þrýsting niður á við. McLaren hefur ekki gefið upp neinar tölur yfir bílinn ennþá en vitað er að hann mun nota V8 vél með tveimur forþjöppum ásamt rafmótor sem skilar samtals 1050 hestöflum. Það þýðir að bílinn á að geta náð yfir 400 km hámarkshraða og fara úr 0 í 300 km hraða á aðeins 12,8 sekúndum. Aðeins 106 eintök verða framleidd og munu fyrstu eintökin fara að sjást í lok næsta árs. Allir bílarnir 106 hafa þegar verið seldir en eintakið kostar 1,75 milljón punda sem eru rúmar 270 milljónir króna á gengi dagsins í dag.