Nýr Audi e-tron kemur í mars

Nýr Audi e-tron var frumsýndur með pompi og prakt í San Fransisco í september en þessi nýi rafjeppi mun koma til Íslands í byrjun mars. Að sögn Árna Þorsteinssonar, sölustjóra Audi mun hann kosta frá átta milljónum þegar hann kemur til landsins. Bíllinn sem er á milli Q5 og Q7 í stærð er klassískur Audi í útliti en með sín sérkenni eins og láréttar línur í grilli og hliðarspeglum sem eru í raun og veru myndavélar. Tveir rafmótorar verða í bílnum, annar 168 hestöfl fyrir afturhjólin og sá fremri 188 hestöfl, en saman gefa þeir afl uppá 402 hestöfl í "Boost" stillingu sem skilar honum í 100 km hraða á undir sex sekúndum. Bíllinn er með 200 km hámarkshraða en Audi hefur lagt höfuðáherslu á endingu rafhlöðunnar, sem þeir ábyrgjast að dugi honum í 400 km akstur.