Nýjum myndum af Peugeot 208 lekið á netið

Myndir af nýjum Peugeot 208 hafa birst á franskri bílasíðu, en bíllinn verður frumsýndur í bílasýningunni í Genf í marsmánuði. Myndirnar sem er frekar óskýrar sýna þó svo ekki verður um villst að mjúka útlitið er horfið og í stað þess eru hvassari línu líkt og í nýjum 508 og 3008 jepplingnum.

Nýr 208 verður stærri en áður og ekki langt frá 308 í stærð, en lengdin verður næstum fjórir metrar. Hjólhafið er meira en áður en skögun að framan og aftan minni þar sem hjólin eru utar en áður. Þetta mun bæta mikið innanrými bílsins en innrétting hans verður einnig ný af nálinni.

Eins og sjá má er innréttingin í i-Cockpit útgáfunni og verður stýrishjólið jafnvel enn ferkantaðra en áður. Peugeot 208 kemur á nýjum undirvagni sem kallast CMP og mun hann geta notast við rafútgáfur, en ennig verður hann allt að 100 kg léttari en fyrri kynslóð. Bíllinn fær nokkrar þriggja strokka bensínvélar frá 70-150 hestöflum en ekki er vitað hvort hann verði boðinn áfram með dísilvélum. Búast má við GTi útgáfu með rafmagnsaðstoð og verður hann yfir 200 hestöfl. Rafútgáfu má vænta árið 2021 að öllum líkindum.