Nýjar njósnamyndir af Land Rover Defender

Það styttist í að nýr Defender fari í framleiðslu en fyrir stuttu náðust nýjar og betri njósnamyndir af jeppanum við prófanir fyrir utan höfuðstöðvar Land Rover í Gaydon. Eins og sjá má verður nýr Defender mun nýstárlegri en sá gamli þrátt fyrir að kassalaga útlit sé enn fyrir hendi. Í lengri útgáfu sinni er greinilega um stóran bíl að ræða, jafnvel stærri en Discovery. Undir dulargervi bílsins má sjá að sumt í útliti hans kemur frá Discovery og Range Rover á meðan annað, eins og til dæmis framljósin minna aðeins á gamla Defenderinn, með kringlóttu aðalljósi með hringlaga stefnuljósið til hliðar við það.

Farangursrými verður með hliðaropnun ef marka má myndirnar. Ekki er ljóst hvenær nýr Defender verður frumsýndur en Land Rover hefur þó látið hafa eftir sér að fyrstu eigendur Defender fái þá afhenta seint á árinu 2020. Land Rover hefur einnig sagt að allar útgáfur bíla sinna verða með rafdrifi á einn eða annan hátt árið 2020 svo að nýr Defender verður líklega með tveggja lítra dísilvél og rafmótor og einnig stærri og öflugri bensínvél. Yfirbygging og grind verður úr áli og verður margt sameiginlegt með framleiðslulínum Defender og annarra bíla frá Land Rover.