Nexo væntanlegur í desember

Hyundai er að verða vistvænasta merkið í bílaheiminum með rafbíla, vetnisbíla, tengiltvinnbíla og tvinnbíla í framleiðslulínu sinni. Nýjasta viðbótin er Hyndai Nexo sem er vetnisbíll og sá fyrsti sem er smíðaður sem slíkur frá grunni. Bíllinn er nokkuð líkur hefðbundnum bílum í tölfræði eins og upptaki, hámarkshraða, afli og plássi svo eitthvað sé nefnt. Fyrsti bíllinn er væntanlegur til Íslands í byrjun desember en eins og gengið er í dag mun hann líklega kosta yfir 8,5 milljónir. Þar skiptir máli að hafa í huga að bíllinn er stór, næstum jafnstór og Santa Fe og fullur af nýjustu tækni. Að sögn Ragnars Sigþórssonar, sölustjóra Hyundai er þegar búið að selja 14 slíka bíla, en hægt er að sækja um styrk frá Evrópusambandinu fyrir kaupum á honum gegnum fyrirtækið Nýorku.