Mustang, Jeep Wrangler og strumpastrætóar

Lee Iacocca er látinn, 94 ára að aldri. Þetta var eina af þeim fréttum, sem mér bárust með morgunkaffinu í morgun. Ekki þó við hefðbundna yfiferð yfir íslenska miðla. Fréttafæð af fráfalli Iacocca kemur svo sem ekkert á óvart, nafn hans er svo sem ekkert heimsfrægt þannig, en bíladellukallar á miðjum aldri og þar yfir þekkja það. Viðaskiptablað Mbl. flutti þó fréttina, enda, þó ég tengi nafn Iacocca við bíla, enda var allur hans starfsferill á því sviði, þá nær frægð hans langt út fyrir þann geira og sumt á ferli hans er talið til sögulegra stórvirkja á sviði markaðssetningar og stórfyrirtækjareksturs almennt.

Saga Iacocca er sagan um “ameríska drauminn”.  Foreldrar hans voru ítalskir innflytjendur sem ráku lítinn veitingastað. Hann gekk menntaveginn fór að námi loknu til starfa hjá stórfyrirtæki hvar hann vann sig upp úr stöðu almenns verkfræðings alla leið í forstjórastólinn á einhverjum tuttugu og fimm árum. Alþýðurdrengurinn sem varð forstjóri. Og það er einmitt sá ferill, sem heldur nafni hans á lofti og mun gera lengi. Á ferilskrá hans hjá Ford er nefnilega að finna atriði, sem byltu bílaheiminum. Og þar er af nógu að taka.

Bílaáhugamenn munum líklega alltaf sjá Mustanginn sem stærsta afrek hans. Alla vega er ljóst, að þá sögu á hann skuldlaust.  Tilurð Mustangsins, hugmyndin hönnunin og markaðssetningin þykir enn í dag eitthvart mesta snildarverk á því sviði og mikið væru vegir heimsins fátæklegri ef enginn væri Mustanginn.

Með honum skópu Iacocca og félagar nýjan markað, ef svo má segja. Komu fram með bíl, sem engum hafði dottið í hug að smíða áður. Og þetta átti hann eftir að gera oftar. Undir 1970 þótti Bandaríkjamönnum tímabært að prófa að smíða smábíla. Ford, undir stjórn Iacocca kom fram með Ford Pinto (sem var að stóru leyti evrópskur Escort en endurhannaður og aðlagaður að amerískum markaði). Vondur bíll, vissulega, en gerði það sem hann þurfti að gera á þeim tíma.

En það er ekki allt dans á rósum lífið á toppnum. 1978 var Iacocca rekinn frá Ford upp úr deilum við Henry Ford II, sem þá var stjórnarformaður fyrirtækisins. Bíla- og viðskiptaheiminum þótti þetta óklókt af Ford, því ferill Iacocca var jú baðaður sigrum og velgengni, svona að mestu leyti.  En eins dauði er annars brauð.

Eftir að hann var rekinn frá Ford tók hann við stjórnartaumunum hjá Chrysler, sem á þeim tíma rambaði á barmi gjaldþrots. Með digrum fjárstuðningi stjórnvalda (sem Iacocca stærði sig síðar af að hafa greitt til baka að fullu hraðar en áætlanir gerðu upphaflega ráð fyrir) hófst hann handa við að endurskipuleggja framleiðslu fyrirtækisins. Tveir nýir bílar náðu að snúa taflinu við fyrir Chrysler. K-línan (Dodge Aries og Plymouth Reliant); framhjóladrifnir, minni og nútímalegri en þeir, sem þeir leystu af hólmi (Dodge Aspen og Plymouth Volare).  En stóra trompið var Dodge Caravan/Plymouth Voyager. Mini-vaninn (eða strumpastrætóinn), sem gjörbreytti bílaplönum venjulegra fjölskyldna. Nóg pláss fyrir alla og mun þægilegri bíll í allri umgengni en risastóri stationbíllinn, með tilkomu minivansins nánast hvarf. Þetta consept lifir góðu lífi enn í dag og vandfundinn er sá bílaframleiðandi sem ekki býður upp á einhvers konar útfærslu af sömu hugmynd. Sumir vilja ganga svo langt að segja að tilkoma hans hafi ein og sér forðað Chrysler frá gjaldþroti á þessum tíma. Eitt enn er vert að nefna frá þessu tímabili Iacocca hjá Chrysler; hann keypti American Motors. Í þeim kaupum fylgdi Jeep, sem hefur reynst fyrirtækinu mikils virði æ síðan og er einhver besta söluvara þess, og hefði eflaust horfið með AMC hefði Chrysler gleypt þá á sínum tíma.

1992 yfirgaf Iacocca Chrysler, þá 68 ára gamall. Hann kom að vísu eitthvað að síðari tilraunum til að endurlífga fyrirtækið úr síðari tíma gjaldþrotaógnum, en það er önnur saga. Síðsta aldarfjórðung hefur hann brallað ýmislegt, með mis góðum árangri, sem ekki verður rakið hér.

Hugsið ykkur bílaheiminn án Ford Mustang, Jeep Wrangler og strumpastrætóa. Án Lee Iacocca væri hugsanlega ekkert af þessu til sölu í dag. Hann skilur eftir sig spor í bílaheiminum, sem verða í minnum höfð lengi. Svo stór, að maður getur í fúlustu alvöru hugsað sér að bílaheimurinn væri í dag ekki alveg eins og hann er hefði hans ekki notið við. Er þetta ekki einmitt skilgreiningin á stórmenni?

Myndir:  Washington Post og LaTimes.