Konsúll Thomsen keypti bíl.

Svo nefnist kvæði eftir Þórarin Eldjárn. Sami titill varð síðar heiti heimildamyndar um upphaf og þróun bílamenningar á Íslandi.

En það er ekki sama bíll og bíll. Eftir því sem bílum fjölgaði og urðu fjölbreyttari varð til einhvers konar flokkunarkerfi bíla byggt á til hvaða nota þeir voru ætlaðir. Hvernig þeir voru síðan notaðir í raun er allt önnur saga. En þegar farið er yfir heiti ýmissra undirflokka, ef kalla má þá svo, sést að heiti þeirra eru oftlega æði misvísandi og lýsa ekki endilega því sem til stóð að lýsa ef maður túlkar orðanna hljóðan bókstaflega. En það er nú svo með orð að eiginleg merking þeirra þarf ekki nauðsynlega að falla að notkun þeirra. Þar koma til málvenjur og hefðir. Allar vangaveltur mínar hér á eftir hljóta því að falla um sjálfar sig þess vegna. En það má skemmta sér yfir þeim.

Fólksbíll hlýtur að eiga að flytja fólk, rétt eins og vörubíll flytur vörur. En hvað þá með fólksflutningabíl? Hann hlýtur líka að flytja fólk. Og hver er þá munurinn á fólksbíl og fólksflutningabíl?

Vörubíll flytur augljóslega vörur, en stór hluti þeirra vörubíla sem við sjáum á ferðinni flytur möl og sand og grjót og því um líkt. Til er vöruflutningabíll, sem leysir þetta ekki, því ef hann flytur vörur. Hvað gerir þá vörubíllinn við þær? Og þá blasir við að líta aftur til flutningabílsins. Hann flytur þá væntanlega bara hvað sem er. Og hvers vegna þá ekki fólk? Nú er ég greinilega kominn í óleysanlegan hnút.

Svo má snúa sér að leigubílnum. Það er eiginlega hið fullkomna rangnefni. Það leigir enginn leigubíl. Maður tekur sér far með honum, svona rétt eins og með fólksflutningabíl. Er hann þá ekki líka leigubíll? Ef þú vilt leigja bíl þá þarftu bílaleigubíl. (og nú væri gaman að ímynda sér að leigubílstjórar gætu leigt bíl til að stunda vinnu sína. Sá héti þá væntanlega bílaleiguleigubíll, eða hvað?).

Síðan má líta til pallbíls (sem við höfum notað yfir það sem á amerísku heitir “Pick Up”). Áðurnefndir vörubílar eru með palli, svo hví eru þeir þá ekki pallbílar?

Sendibíll er notaður til að fara með sendingar án þess að skilgreint sé hvers konar sendingar um er að ræða. Þess vegna gæti vörubíllinn allt eins verið sendibíll (sendist með möl og sand osfrv). Svo tók IKEA upp á því að bjóða viðskiptavinu sínum gegn gjaldi bíla til að flytja innkaupin heim. Eru það þá sendibílar eða bílaleigubílar? Eða jafnvel vörubílar, því þeim er ætlað að flytja vörur.

Svo er það blessaður sportbíllinn. Upprunaleg skilgreining liggur ljós fyrir og er sótt til Englands einhver 70-80 ár aftur í tímann. En síðan hefur hún dreifst æði víða og er nú í daglegu tali notuð yfir æði fjölbreytilegan hóp bíla. Hann er efni í langa grein. Hver veit nema ég riti einhvern daginn greinina “Hvað er sportbíll?”

Hér hef ég sem sagt drepið á nokkrum málfarslegum þversögnum í bílaflokkun og gæti haldið áfram lengi á þeim nótum. En hvernig væri að kíkja aðeins á bílinn sjálfan, burt séð frá flokkun og leita uppi fleiri álíka heimskulegar vangaveltur.

Af hverju heitir einn mælirinn í mælaborði bíla kílómetramælir? Hann er ekki til að mæla kílómetra. Allir vita að hann er og verður þúsund metrar og metrinn er vandlega skilgreindur og varðveittur einhvers staðar.  Hér rekur hver óleysanlegi hnúturinn annan.

Gírstöng. Merking orðsins er augljós; stöng, sem stjórnar gírum. En; Mersedes Bens hefur í sjálfskiptum bílum sínum kastað henni fyrir einhvern stilk við stýrishjólið, sem maður óBensvanur ruglar gjarna við stefnuljósastilkinn. Vissulega er þetta stöng (þó stutt sé) en hún hefur enga beina mekaníska tengingu við gíra. Og af hverju er gírstöng í rafbílum? Í þeim eru engir gírar yfir höfðuð.

Já, þetta er ekki einfalt mál. En þar sem skilgreiningar sem þessar eru vandlega greiptar í huga okkar þá valda þær engum misskilningi. Því má segja að svona tuð einhverra málfarsnörda, sem ég er sannarlega, skipti engu máli. Svo hvers vegna er ég þá að tuða þetta? Veit það ekki almennilega, er líklega bara að reina að vera sniðugur, hvort sem það tókst eða ekki.

Mynd: RÚV