Hyundai með stóran jeppa á Ameríkumarkað

Hyundai ætlar sér greinilega stóra hluti því að á bílasýningunni í Los Angeles kynnti Hyundai til sögunnar Hyundai Palisade jeppann ásamt hugmyndum um pallbíl í náinni framtíð. Um fullvaxinn jeppa er að ræða með 3,8 lítra V6 vél sem skilar 291 hestafli. Hann verður með átta þrepa sjálfskiptingu og að sjálfsögðu fjórhjóladrifinn. Bíllinn var hannaður af SangYup Lee, yfirmanni hönnunardeildar Hyundai en smíðaður í Ulsan í Kóreu. Mun Palisade koma á markað í Ameríku árið 2020 en ekki er líklegt að hann verði fáanlegur hérlendis, enda virðist bíllinn vera hannaður með Ameríkumarkað í huga.