Hljóðmyndavélar prófaðar í Bretlandi

Á næstu sjö mánuðum mun lögreglan í Bretlandi prófa nýja gerð hljóðmyndavéla segir í tilkynningu frá samgöngumálaráðuneyti Bretlands. Þótt að of hávær ökutæki séu bönnuð samkvæmt lögum hefur mörgum tekist að fara í kringum þau þar sem að ökutæki koma í flestum tilfellum aðeins til skoðunar á 1-2 ára fresti.

Einnig hafa hávaðaprófanir innandyra á hreyfingarlausu ökutæki verið gagnrýndar talsvert fyrir að gefa ekki rétta mynd af hávaðanum.

Nýju vélarnar eiga að mæla þetta betur við raunaðstæður og þar sem að þær nota númeralesara eiga þær að geta "séð" árgerð farartækisins og þar af leiðandi mismunandi desibelahámark þess. Vélarnar verða prófaðar á nokkrum stöðum í Bretlandi og ef útkoman er góð munu þær verða settar upp á landsvísu.