Haynes sjálfshjálpargúrú bílskúrskallsins látinn 80 ára að aldri

Þeir sem einhverntíman hafa fengið smurolíu á puttana þekkja bækurnar frá Haynes og eflaust náð að smita smá af þeirri smurningu á pappírinn í þeim. John Harold Haynes lést á föstudaginn umkringdur ættingjum sínum eftir snögg veikindi. Það er skemmtileg saga hvernig hann fékk áhuga á að gefa út bækur um viðgerðir á bílum og mótorhjólum. Þegar hann var unglingur í heimavistarskóla fékk hann leyfi til að sleppa rugbyæfingum í staðinn fyrir verkefni sem fólst í því að breyta Austin 7 í léttari og sportlegri Austin 7 Special.

Hann auglýsti seinna bílinn til sölu og fékk fjölda fyrirspurna, eða 150 talsins og það löngu fyrir tíma veraldarvefsins. Hann ákvað að búa til nokkurs konar bækling sem sýndi hvernig maður smíðar "750 Special" og prentaði 250 eintök, sem öll seldust upp á örfáum dögum. Hann hóf þó ekki útgáfu sína strax enda ungur maður sem þurfti að prófa vængina og gekk því í konunglega breska flugherinn RAF. Í frítíma sínum þar tók hann þátt í kappakstri og smíðaði nokkra slíka bíla, meðal annarra Elva Courier bílinn sem nú er á safni hans.

Fyrsta Haynes sjálfshjálparbókin kom út 1966 og var um Austin Healy Sprite, bíl sem félagi hans hafði keypt og beðið um að hjálpa sér við.

Þar sem að bæklingurinn sem fylgdi bílnum var algjörlega ónothæfur, tók hann sér myndavél í hönd á meðan endurgerð vélarinnar fór fram. Þess háttar skref fyrir skref myndalýsingar ásamt sprengiteikningum urðu aðalsmerki Haynes bókanna sem selst hafa í meira en 200.000.000 eintökum um allan heim. Haynes notaði meðal annars hagnað af sölu bóka sinna til að byggja upp bílasafn sitt, Haynes International Motor Museum í Sparkford Sumerset, en þar eru nú meira en 400 farartæki til sýnis.

Elva Courier bíllinn sem Haynes keppti á er einnig á safninu. Vill einhver giska á hvaða bíll er í bakgrunninum?
Austin 7 Special bíllinn sem lagði grunninn að Haynes bókaútgáfunni á safni Haynes í Sumerset.