Hann á afmæli í dag!

17. apríl fyrir fimmtíu og fimm árum hófst sala á einum af þekktustu bílum sögunnar. Hann var í upphafi, og hefur svo sem verið alla tíð, í sjálfu sér ekkert stórmerkilegur. En, og það er löng saga sem ekki verður rakin hér, hann hitti inn í eyðu í bílamarkaðnum í Bandaríkjunum og í framhaldinu víða um heim. Áætlanir framleiðandans voru að selja einhver 150 þúsund stykki fyrsta árið, en þeir voru komnir í milljón áður en það var úti. Bíll þessi, með þessu nafni er enn á markaði. Hann hefur vissulega gengið í gegn um alls konar breytingar og þróun á þessari ríflega hálfri öld sem liðin er frá því að hann sást fyrst, en ímynd hans hefur haldið velli og vaxið frekar en hitt í gegn um. Og hver er gripurinn sem hér um ræðir?

Ford Mustang

Stuttu eftir að ég í tilefni dagsins setti á FB mynd af Mustanglogoinu sem er húðflúrað á handlegg mér fékk ég skilaboð frá einum af okkur billinn.is mönnunum. „Er ekki rétt að henda í grein um þetta?“ var spurningin. Ég spurði á móti hvort ég fengi tuttugu blaðsíður. Nei, það var ekki í boði. Ef þið viljið lesa sögu Mustangsins ítarlega þá er hún auðgooglanleg.  Svo ég ætla bara að láta sagnfræðina liggja milli hluta (fyrst ég fékk ekki þessar 20 bls).

Af hverju er Ford Mustang, afsakið slettuna, ICON í bílasögunni?  Því er ekki auðsvarað. Ef þú biður einhvern, sem hefur engan áhuga á bílum að nefna slatta af klassík þá mun Mustanginn koma upp á meðal miklu flottari og frægari og dýrari bíla. Sýndu einhverjum logoið og það þekkja allir. Úti um allan heim finnurðu hópa áhugamanna um Mustang. Íslenski Mustangklúbburinn er virkur. Hérlendis eru til eintök af öllum kynslóðum Mustangsins (við erum í sjöttu kynslóð núna).

Ég kynntist Mustangnum fyrst nokkrm árum undir bílprófsaldri þegar nágranni minn mér einhverjum árum skartaði hverjum á fætur öðrum í innkeyrslunni heima hjá sér. „Svona ætla ég að eignast þegar ég verð stór“ hugsaði fermingardrengurinn ég. Svo leið tíminn. Mikið af honum. Aldrei eignaðist ég Mustang. En, þegar ég varð lksins „stór“ flutti ég mér frá Texas eitt stykki frá 1967. Gamli draumurinn hafði loksins ræst. Og svo vatt þetta upp á sig. 2006 módel, einn 1972, svo 2015 bíll, svo tattooið á handlegginn. Sem mun fylgja mér lengur en bílarnir.

En, nú er ég kominn algerlega út í móa með þessa grein. Eins og mig langar að fara út í að rekja sögu Mustangsins, en sagði áðan að ég ætlaði ekki að gera, þá læt ég hér staðar numið. Lokaorðin: Ford Mustang er í eðli sínu lítt merkilegur bíll sem hefur öðlast „Iconic“ ímynd. Ég hef átt nokkra af ýmsum kynslóðum, en ég hef líka átt fullt af miklu betri bílum. Þeir eru samt ekki á handleggnum á mér. Ímynd, ímynd, hún vikter meira en nokkuð annað.

Til hamingju með afmælið allir Mustangarnir mínir.

Hér má sjá myndir frá Mustang klúbnum