Handskrúfaðar rúður

Þar sem ég horfði út um stofugluggann á fyrstu alvöru sumarrigninguna skella á rúðunum varð mér hugsað til Mary Anderson. Konunnar, sem fékk árið 1903 einkaleyfi á rúðuþurrkum fyrir bíla. Ekki þótti þessi uppfynding þó merkilegri en svo að það var ekki fyr en um tuttugu árum síðar sem framleiðendur sáu ástæðu til að bjóða slíkan búnað á bílum sínum. Í dag undrumst við að þessu þarfaþingi hafi ekki verið tekið opnum örmum strax á fyrsta degi og ekki vildum við vera án þeirra í dag.

Sem rifjaði upp fyrir mér sumarleyfi fjölskyldunnar í Portúgal fyrir tveim áratugum eða svo. Þar fengum við til afnota bílaleigubíl. Dætrum mínum vakti eitt við hann mikla undrun. “Það eru handskrúfaðar rúður” var mér tilkynnt úr aftursætinu í fyrstu ferðinni. Þetta var þeim framandi. Ég var örugglega eldri en þær voru á þessum tíma þegar ég sá bíl með rafmagnsrúðum í fyrsta skipti. Í dag finnast vart á markaði bílar með “handskrúfuðum rúðum”.

Svipaða sögu má segja um ótal margt annað í bílunum okkar. Í dag eru þeir stútfullir af alls lags búnaði, sem ýmist eykur öryggi okkar eða þægindi, sem við vildum örugglega ekki vera án. Slíkur er máttur vanans. Allt, sem við venjumst við að nota dags daglega verður að ómissandi nauðsynjum þó það hafi verið óðarfa íburður og lúxus fyrir ekki svo löngu síðan. Svo, svona til gamans, þá fór ég að hugsa um hvað af öllu þessu sjálfsagða, en svo sem ónauðsynlega glingri var ennþá fáheyrður lúxus í mínu minni og manni þótti merkilegt þegar maðu kom fyrst í bíl þannig útbúinn.

-sígarettukveikjari  

-öskubakkar afturí

-útvarp með kassettutæki

-rúðuþurrkur með letingja

-afturrúðuhitari

-samlæsingar

-spegill í sólskyggni

-hauspúðar

-öryggisbelti

Í þeim fyrstu bílum sem mér var ekið í og ók jafnvel sjálfur var ekkert af ofantöldu. En síðan hafa mörg ár liðið. Allt þetta og margt fleira sem ég man ekki að telja upp dytti engum í hug að neita sér um í dag. Og kannski eiga þeir, sem í dag eru á barnsaldri eftir að lenda í því einhvern tíma að koma í “frumstæðan” bíl sem skortir einhverjar lífsnauðsynjar nútímans. “Það þarf að hækka í útvarpinu með takka” gæti orðið eins og “handskrúfuðu rúðurnar” eitthvart árið. Eða er kannski orðið það nú þegar? Eða, þegar jarðefnaelsdneytisdrifni bíllinn verður horfinn, þá gætum við jafnvel heyrt: “Sjáiði þennan bíl? Það heyrist í honum”.