Ford hótar að yfirgefa Bretland í skugga Brexit

Samkvæmt fréttasíðunni The Truth about Cars hefur stjórn Ford hótað að færa starfsemi sína alfarið frá Bretlandseyjum. Það mun hafa verið skýrt fyrir Theresu May forsætisráðherra Bretlands á einkafundi hennar og helstu viðskiptajöfra um hvernig Brexit muni hafa áhrif á efnahagslíf Bretlands.

Ford segist vera tilbúnir að færa allar sínar vinnustöðvar frá Bretlandi, sem eru tvær vélaverksmiðjur, samsetningarverksmiðja fyrir gírkassa og þróunarstofa í Dunton. Á meðan hvorki gengur né rekur í samningaviðræðum ESB og Bretlands eru bílaframleiðendur að missa þolinmæðina.

Ford lét hafa eftir sér við fréttamiðilinn Reuters að Brexit án samnings við ESB yrði mjög slæmt fyrir Evrópudeild fyrirtækisins, og myndi kosta framleiðandann allt að einn milljarð punda. Hærri tollar á bílum og íhlutum er eitthvað sem Ford getur ekki litið framhjá. "Við höfum þrýst á stjórnvöld í Bretlandi að vinna saman til að koma í veg fyrir að Bretland yfirgefi ESB án samnings" sagði Ford við Reuters síðastliðinn þriðjudag. "Við munun gera það sem þarf til að halda okkur samkeppnisfærum" sagði Ford ennfremur. Ford hefur sagt að til standi að segja upp þúsundum starfa í Bretlandi og hugsanlega Evrópu vegna stöðunnar.