Ford F-150 aftur fáanlegur í Harley-Davidson útgáfu

Ford og Harley-Davidson hafa lengi átt með sér samstarf, en minnstu munaði að Ford eignaðist Harley merkið á millistríðsárunum. Árið 1999 kynnti Ford fyrst Harley-Davidson útgáfu F-150 pallbílsins og á 115 ára afmæli Harley-Davidson í ágúst var tilraunaútgáfa af nýja F-150 pallbílnum merktur í bak og fyrir og settur á safn Harley-Davidson í Milwaukee.

Í tilefni Chicago bílasýningarinnar sem hefst á morgun tilkynnti Ford nú að þessi Harley-Davidson útgáfa verði nú aftur fáanleg fyrir almennan markað.

Það er Tuscany Motor Company breytingarverkstæðið sem sá um breytingu bílsins, sem er koltrefjasvartur að lit, en einnig verður hægt að fá hann tinnusvartann eða platínuhvítan. Hann mun koma á breiðum 22 tommu felgum, með BDS fjöðrun og Fox dempurum. Vélarhlífin er fengin að láni frá Raptor útgáfunni. Innandyra eru saumarnir í svatri leðurinnréttingunni appelsínugulir að lit til að minna á Harley-Davidson tenginguna.