Fleiri bílaleigur lækka kílómetratölur

Í eftirgrennslan billinn.is um hvort fleiri bílaleigur hafi stundað sama leik og Procar, að lækka kílómetratölu bíla sinna virðist svo vera.

Samkvæmt tveimur heimildarmönnum billinn.is hafa fleiri bílaleigur stundað þetta í töluverðan tíma.

Hvorugur aðilinn vill koma fram undir nafni en segja báðir að fleiri leigur, en alls ekki allar, séu viðriðnar svona mál. Annar heimildarmaðurinn segist þó telja að það hafi verið gert með leigu bílanna til ferðamanna í huga, þar sem að há kílómetratala myndi fæla viðskiptavini frá. Hann treysti sér þó ekki til að segja hvort að kílómetrateljurum bílanna hefði verið spólað til baka áður en þeir voru seldir aftur. Hann sagði líka að í einhverjum tilvikum hefði verið átt við mælaborð bílaleigubíla, sérstaklega af gerðinni Suzuki Jimny. Var þar bæði um að ræða notuð mælaborð með lága kílómetratölu en einnig hefðu ný mælaborð verið keypt í tugatali.

Eins og sjá má eru mælaborð Suzuki Jimny bílaeinföld að gerð og auðvelt að eiga við þau.