Evrópuútgáfa Tesla Model 3 komin á markað

Tesla hefur hafið sölu á Evrópuútgáfu Model 3 í völdum Evrópulöndum, ári á eftir markaðinum í Bandaríkjunum. Tvær útgáfur verða strax fáanlegar, Model 3 Long Range og Performance. Báðar útgáfur uppfylla WLTP prófunarstaðalinn en drægni beggja útgáfa er 544 km samkvæmt honum með 75 kWh rafhlöðunni. Performance útgáfan mun ná 100 km á klst á aðeins 3,7 sekúndum með 250 km hámarkshraða. Evróðuútgáfurnar verða með CCS hleðslutengjum en fyrstu eintökin verða afhent í febrúar 2019. Verðið á Long Range verður frá 8 milljónum króna en Performance frá 9,7 milljónum króna. Hvort einhver bílasala mun hefja innflutning á Evrópugerðunum er ennþá ekki ljóst en það gerðist þó á dögunum að Tesla auglýsti eftir tæknimanni Tesla bifreiða á Íslandi, þrátt fyrir að ekkert formlegt umboð sé fyrir Tesla bílana hérlendis.