Er rafdrifinn Mustang á leiðinni?

Ford hefur gert allt annð en að viðurkenna að rafdrifinn Mustang sé í pípunum en í nýrri auglýsingu er svo sannarlega ýjað mjög sterklega að því. Myndbandið fjallar um hvernig Ford ætlar sér að vera framarlega í framleiðslu rafdrifinna og sjálfkeyrandi ökutækja. Í tveimur sekúndum af myndbandinu bregður fyrir framenda Mustang með hestinum góða í neonbláum lit. Ford hefur þegar tilkynnt að sextán nýir rafbílar munu koma frá merkinu frá 2020-2022. Meira að segja hafa þeir notað blátt Mach 1 merki fyrir kynninguna á þeirri línu rafbíla sem aftur bendir sterklega í áttina að Mustang Mach 1 bílunum. Það verður þó að bíða aðeins eftir frekar fréttum af þessu en hugsanlega mun Ford nota bílasýninguna í Los Angeles í lok nóvember til að tilkynna eitthvað frekar um þetta.