Einstakt tækifæri til að skoða Audi e-tron quattro

Hekla fékk eitt sýningareintak til landsins sem fór aftur til baka í nýrri viku.

Mikil spenningur hefur myndast hjá væntanlegum kaupendum á Audi e-tron quattro, sem er væntanlegur til landsins á fyrstu mánuðum nýs árs. Vegna þessarar eftirvæntingar fékk Hekla lánað eitt eintak af þessum bíl og á laugardaginn var, 8. desember, gátu þeir sem áhuga höfðu á að skoða bílinn komið við í sýningarsal Audi hjá Heklu á Laugaveginum og skoðað bílinn, en bílnum var síðan skilað aftur til útlanda á mánudaginn var.

Að sögn Heklu-manna eru á milli 50-60 kaupendur nú þegar búnir að greiða staðfestingargjald á svona bíl, og er vonast til þess að flestir þeirra verð búnir að fá bílinn í hendur fyrir sumarið. Sérstök sýning var á bílnum á fimmtudagskvöldið fyrir væntanlega kaupendur og aðra sem voru þegar búnir að sýna bílnum áhuga.

Audi e-tron quattro í sýningarsal Audi við Laugaveginn. Þessi sýningarbíll er í Antiqua Blue-lit og vel búinn. Sjón er sögu ríkari.
Fallegar línur og hefðbundinn „Audi-svipur“ er á þessu nýja bíl.

Kraftmikill og spennandi bíll

Audi e-tron er með tvo rafmótora sem gera bílinn ágætlega kraftmikinn. Þeir koma þessum sportjeppa hratt upp á fullan hraða, og viðbragðið þegar ekið er af stað er sagt vera sambærilegt við sportbíl. Nýja rafdrifna aldrifið veitir besta mögulega veggrip og aksturseiginleika við öll skilyrði. Hægt er að kveikja á quattro drifinu þegar þess er óskað og það veitir sértæka dreifingu á togi, sveigjanlega stýringu á öxlunum og gerir aksturinn skemmtilegan, á hvaða undirlagi sem er.

Kraftmikill framendi og ljós sem ná út til hliða setja sinn svip á bílinn.
Það fer greinilega ekki mikið fyrir rafmótorunum í „vélarhúsinu“ sem er með ágætt geymsluhólf ofan á aflbúnaðinum.
Þegar „geymsluhólfið“ er opnað er hér komið fínt pláss til að geyma hleðslukapla og annað dót.
Líkt og aðrir bílaframleiðendur hefur Audi tekið LED-tæknina í fulla notkun og gefur það framljósunum sérstakt yfirbragð.

Nýjar merkingar hjá Audi

Þessi Audi e-tron quattro er með merkið 55 quattro á afturendanum. Hvað þýðir þetta myndu sumir spyrja og þá er rétt að rifja upp nýjar merkingar vélarstærða hjá Audi:

Tölustafir á undan merki                         Afl

25                                                           80kW og þar fyrir neðan (allt að 106 hö)

30                                                           81kW til 91kW(107 hö til 127 hö)

35                                                           110kW til 120kW(145 hö til 159 hö)

40                                                           125kW til 150kW(165 hö til 198 hö)

45                                                           169kW til 185kW(223 hö til 244 hö)

50                                                           210kW til 230kW(278 hö til 304 hö)

55                                                           245kW til 275kW(324 hö til 363 hö)

60                                                           320kW til 340kW(423 hö til 449 hö)

70                                                           400kW og yfir(529 hö og yfir)