Dyson að gera alvöru úr rafbílaáformum

Dyson merkið er kannski þekktast fyrir ryksugur en þessi alþjóðlegi framleiðandi er nú að gera alvöru úr því að smíða samkeppnishæfan rafbíl sem kemur á markað snemma á næsta áratug. Það nýjasta í þeirri vegferð er ráðning Roland Krueger sem var áður stjórnandi slíkra verkefna hjá BMW og Infinity. Rafbíll Dyson verður þróaður í Bretlandi en framleiddur í Singapore. Dyson keypti nýlega gamlan flugvöll frá breska flughernum ásamt byggingum sem nú er búið að endurbyggja. Þar eru 16 km langar prófunarbrautir fyrir þróun bílsins, sem lítið er vitað um. Hann er ekki sportbíll né smábíll að sögn yfirmanna Dyson og ekki mun hann heldur keppa við Leaf. Hann mun notast við nýja gerð rafhlaða og hafa einhverja sjálfstýrimöguleika.