Ducati mun setja rafhjól á markað áður en langt um líður

Forstjóri Ducati, Claudio Domenicali lét hafa það eftir sér um helgina að rafdrifið kappaksturshjól með Ducati merkinu væri ekki langt undan. Orðrómur hefur verið um slíkt síðastliðin tvö ár sem nú hefur verið staðfestur, en áður hafði stjórnarmaður hjá Ducati sagt að rafdrifið mótorhjól og vespa væri á teikniborðinu. "Framtíðin er rafdrifin og við erum stutt frá því að geta hafið framleiðslu" mun Domenicali hafa sagt, en Ducati hefur einnig sýnt teikningar af slíku tilraunahjóli. Ducati er í eigu Audi bílamerkisins sem er framarlega í þróun rafbíla svo að þetta þarf svo sem ekki að koma á óvart. Einnig mun KTM mótorhjólaframleiðandinn hafa sýnt því áhuga að kaupa Ducati merkið að einhverju leyti.