Byton rafbíllinn fær skjá í stýrið

Á tímum rafbílavæðingar er ekki lengur nóg að fylgjast með stóru bílasýningunum til að sjá hvað er væntanlegt heldur þarf líka að skoða tæknisýningar eins og Consumer Electronics. Meðal þess sem sýnt verður þegar hún opnar í næstu viku er ný tækni í bíl frá Byton, nefnilega snertiskjár í stýrið. Ef marka má myndina sem Byton birti að apparatinu er flestum aðgerðum í mælaborði stjórnað frá þessum skjá. Byton mun koma á markað seinna á þessu ári og þá fyrst í Kína, en merkinu er ætlað að keppa við Tesla í Bandaríkjunum með því að undirbjóða ameríska framleiðandann talsvert þegar merkið hefur sölu þar árið 2020. Skjár í stýrið vekur eflaust margar spurningar svo ekki sé talað um snertiskjá. Ein þeirra er eflaust sú hvar þeir hafa komið fyrir öryggispúðanum.