BMW X7 kemur árið 2019 en X5 um áramót

Það styttist í að ný BMW X7-lína komi á markað en þegar hefur verið gefið út að hann komi á markað í mars í Bretlandi. Þar mun hann kosta örlítið meira en Mercedes-Benz GLS en enn hefur ekkert verið ákveðið með verð á bílnum hérlendis. Að sögn Guðmundar Inga Gústavssonar, sölustjóra BMW og MINI mun það koma í ljós fyrir áramót hvaða verði bíllinn verður á. "Fyrsti kynningarbíllinn er væntanlegur í apríl og verðu þá þriggja lítra dísilbíll" sagði Guðmundur við billinn.is. Sú vél er 265 hestöfl, en einnig er von á 340 hestafla bensínvél. Flaggskipið verður M50d með þremur forþjöppum og 400 hestöfl. BMW X7 verður með þremur sætaröðum sem staðalbúnaði, en einnig verður hægt að fá hann sex sæta með tveimur sætum í miðjuröðinni. Útlitslega er hann ekki ólíkur bílnum sem frumsýndur var í fyrra en meira króm er á honum en sést hefur áður hjá BMW. Staðalbúnaður verður einnig ríkulegur, upphituð leðursæti alla leið og skynvædd díóðuljós. Einnig verða tveir 12,3 tommu litaskjáir, annar þeirra snertiskjár og sjálfstýrimöguleiki á hraðbrautum. Að sögn Guðmundar Inga er styttra í að nýr BMW X5 verði kynntur hérlendis, en það verður væntanlega í desember. "Sá bíll kemur strax með 30d dísilvélinni og 40i bensínvélinni" sagði Guðmundur að lokum.