Besti bíll í heimi?

Fyrir einhverjum tíu árum eða svo skrifaði ég grein sem hét “Besti bíll í heimi?”, með áherslu á spurningamerkið.  Nýlega horfði ég á Top Gear þátt frá 2008, þar sem Clarkson og May lýstu fjálglega hve ömurlega bíla Sovétmenn smíðuðu á sínum tíma og bentu á Lödu og Moskvich máli sínu til stuðnings. Verandi svo gamall að ég man þessa bíla vakti þetta upp vangaveltuna um hvað sé í raun góður bíll.

Ekki ætla ég mér þá duld að geta svarað því, um það verða menn aldrei sammála.  Nægir að gúggla spurninguna hvað sé besti bíll í heimi og upp koma ótal svör.  Gæði eru jú afstæð. Tökum dæmi: Toyotur eru, að mati svona bíladellukalla eins og mín, almennt ekkert sérstaklega spennandi.  Ég átti samt nokkrar á sínum tíma, enda uppfylltu þær allar mínar þarfir þá; rúmuðu fjölskylduna alla og voru áreiðanlegar. Sem rekur hugsun mína að kommúnistabílunum, sem Topgíringar hallmæltu svo mjög í áðurnefndum þætti.  

Ég átti samtals þrjár Lödur á sínum tíma og þær voru frábærar.  Námsmanni hentuðu þær vel, fóru oftast nær í gang, voru ódýrar og einfaldar í viðhaldi þegar þær gerðu það ekki og kostuðu lítið.  Hvað er hægt að biðja um meira?  Þær gerðu í raun allt hið sama og Toyoturnar, sem leystu þær af hólmi þegar ég hafði breyst úr háskólanema í fjölskyldumann.  
Lada 1500 var vinsæll bíll á Íslandi á sínum tíma.

Þegar ég var strákur þótti mörgum amerískir bílar vera toppurinn á tilverunni og sumir létu aldrei af þeirri trú. Ég man eftir nágranna mínum á níunda áratugnum, sem skipti oft um bíla og hafði gaman af að prófa eitt og annað.  Hann eignaðist einhverju sinni 5 línu BMW, en skipti honum fljótlega út fyrir Ford Fairmont og sagðist aldrei hafa átt eins leiðinlegan bíl og þennan BMW og skildi ekkert í þessari aðdáun margra á þýskum bílum.  Ég, eins og ég sagði, ólst upp við þetta dálæti á amerískum bílum og smitaðist af því sjálfur. Komst að því síðar og hef ekki látið af þeirri skoðun að þýskir bílar séu bestu bílar í heimi, en það er bara ég. Og, alinn upp við þessa ameríkubílaaðdáun, átti nokkra slíka af og til í gegnum árin og á í dag tvö eintök af hálfrar aldar gömlum Mustang.  Þeir eru vissulega komnir til ára sinna og flokkast sem fornbílar, en eru einmitt þess vegna fulltrúar þessa tíma. En, þetta eru hræðilegir bílar. Ekki misskilja mig, ég er ákaflega ánægður með þá og þykir mikið vænt um þá, eins og Volkswagen bjölluna sem stendur milli Mustanganna í skúrnum mínum. Hún er hreint hræðilegur bíll (þó líklega hálfu skárri en Mustangarnir). En mér þykir vænt um þá alla.

En hvað er eiginlega að þessum bílum? Nákvæmlega ekki neitt. Nema; tímarnir líða og breytast eins og skáldið sagði.

Svo; hvað er góður bíll? Og hver er bestur? Dacia Duster eða Bugatti Veyron? Bjóddu öllum sem þú þekkir að velja á milli þeirra á mynd og allir velja örugglega hinn síðari. En, ef hægt væri að raungera valið þá myndu flestir sennilega bölva valinu, ef bíllinn ætti að þjóna til daglegs brúks. Málið er nefnilega að bíll er ekki endilega það sama og bíll. Þetta fer allt eftir því til hvers þú ætlar að nota hann. Eins og ég sagði um Mustangana mína; vondir bílar í sjálfu sér, en fínir í stöku ísbíltúr svona rétt yfir hásumarið. En sem daglegur brúkshlutur eru eiginlega allir bílar betri. Þetta snýst nefnilega allt um hvað þú vilt að bíllinn geri. Besti bíllinn er sá, sem gerir það sem þú ætlar að nota hann til. Keyra fram og til baka í 101; VW Up eða eitthvað svoleiðis. Ferðast um landið, Sprengisand og allt; Land Cruiser; vera flottur og kúl og monta þig; Porsche eitthvað eða Range Rover,…, ég get haldið endalaust áfram. Allir bílar hafa eitthvað til síns ágætis, meira að segja Lödurnar í gamla daga, bara ef þeir passa inn í þarfagreininguna.

Hvítir sportbílar grípa augað.

Alltaf þegar vinnufélagar eða vinir eða kunningjar hringja í mig og segjast vera að íhuga bílakaup og spyrja mig hvað þeir eigi að skoða (já, ótrúlegur fjöldi fólks heldur að ég hafi eitthvert vit á þessu) spyr ég alltaf sömu spurninganna: Hvað þarf hann að gera fyrir þig og hvað má hann kosta? Síðan leita ég innan þessa ramma. Ef “pláss fyrir fjóra og barnavagn og farangur” er krafan hef ég ákveðið svar, ef “hip og cool” er krafan, þá fær viðkomandi annað svar, svo ekki sé talað um spurninguna “kraftmikið með góða aksturseignileika” (sem er uppáhaldsspurningin mín, en sjaldgæf), þá, augljóslega er svarið enn annað. Það sem ég er að reyna að segja er að “besti bíllinn” er algerlega háð óskum og þörfum hvers og eins. Svo, það er enginn bíll bestur; eða kannski allir, svona eftir því hvernig á það er litið. Alla vega er enginn bíll alslæmur. Þetta hefði Sokrates eflaust sagt hefði hann verið spurður.