Audi sýnir þriðja rafbílinn í Genf

Audi hefur tilkynnt að þeir muni sýna nýjan rafbíl á bílasýningunni í Genf sem hefst 7. mars næstkomandi. Þótt bíllinn sem sýndur verður sé ekki framleiðsluútgáfa mun vera stutt í það að þessi bíll fari á færiböndin. Hann mun þurfa að búa sig undir harða samkeppni strax því að meðal samkeppnisaðila verður ný Tesla Model Y, rafútgáfa Volvo XC40 og jepplingur í svipaðri stærð frá Mercedes sem allir eiga að koma fram á þessu ári. Audi bíllinn verður nokkurs konar systurbíll Q3 og mjög nálægt honum í stærðartölum. Hann mun þó ekki byggja á sama undirvagni heldur nota nýja MEB undirvagninn frá VW og þar með verða fyrsti Audi bíllinn til þess. Þessum rafbílaundirvagni hefur verið líkt við hjólabretti þar sem að rafhlaðan er neðsti hlutinn og rafmótorar og hlutir sem þarfnast kælingar eru felldir inní pakkann. Þetta mun þýða að það verður auðvelt fyrir Audi að koma fljótt með fólksbíl í svipaðri stærð. Minnsta rafhlaðan sem í boði verður er 48kWh og mun komast 330 km á hleðslunni en einnig verður 60kWh rafhlaða með 375 km drægni. Búast má við að þessi bíll komi í sýningarsali Audi snemma árs 2020 en Audi hefur þegar tilkynnt að þeir muni bjóða uppá 12 gerðir rafbíla árið 2025.