Askja frumsýnir glænýjan G-Class á Kjarvalsstöðum

Bílaumboðið Askja frumsýndi fimmtudaginn 27. september glænýjan Mercedes-Benz G-Class sem hefur verið beðið með eftirvæntingu á Íslandi. G-Class er ekki hásölubíll enda í dýrari kanntinum en hann hefur alltaf þótt ráða yfir slíkri fágun í bland við óvenju mikla drifeiginleika að leitun er að keppinautum og því hefur hann notið nokkurra vinsælda hér á landi.

Gamli bíllinn hefur alltaf þótt spennandi kostur sem mjög verklegur bíll sem þó var farinn að líða fyrir gamla hönnun og sérsmíði sem ef til vill var ekki eins áreiðanlegur kostur og kaupendur Merecedes-Benz óska.

Nýi bíllinn tekur á öllu því sem helst var hægt að finna að gamla bílnum. Nýr G-Class er mun fágaðri, breiðari, léttari, liprari, öflugri og margfalt betur smíðaður en áður en þó viðheldur hann sama gamla útlitinu með nauðsynlegum nútímalegum uppfærslum. Það er reyndar sagt að aðeins fimm hlutir séu sameiginlegir með gamla bílnum, hurðarhúnarnir, hlífin yfir varadekkið, sólskyggnin, spíssarnir fyrir framljósaþvottinn og svo einhver festing sem engin sér. Þetta er því raunverulega nýr bíll – sem lofar að gera allt það sem sá gamli gerði svo vel, bara enn betur.

Einn lífseigasti bíll fyrr og síðar

Gamla gerð G-Class átti sér 39 ára lífsskeið og því er kynslóðin sem nú er kynnt aðeins önnur kynslóð gerðarinnar. Á þessum tíma mátti vera ljóst að verulegra breytinga var þörf, á sama tíma og nauðsynlegt var að varðveita anda bílsins. Á meðan gamli G-Class var vinnuhestur, stundum dressaður upp eins og G 63 AMG 6X6, þá verður er nýi bíllinn lúxus jeppi sem þarf að bera sig sem slíkur í vörulínu Mercedes-Benz.

Breytingarnar á annarri kynslóðinni eru í raun allar jákvæðar. Bíllinn heldur drifgetunni, upprunalega útlitinu en fær nútímalega yfirhalningu sem tekur ekkert frá bílnum, bætir bara við. G-Class verður því ennþá bíll sem bílhneigðir elska.

Fyrstu tvær gerðirnar sem voru kynntar af Öskju voru G500 sem kostar í grunnútgáfu sinni kr. 22.360.000 og G63 AMG sem kostar frá kr. 31.380.000. G350 d verður þó líklega vinsælasti bíllinn þegar hann kemur.