Hægt að skoða nýjan Jeep Compass í sýndarveruleika

  • Tæpur mánuður þar til að nýr Compass verður frumsýndur en strax hægt að skoða bílinn í sýndarveruleika í sýningarsal Ísband í Mosfellsbænum

Það styttist í frumsýningu á nýjum Jeep Compass hjá umboðsaðila Jeep á Íslandi, Ísband í Mosfellsbænum. Þessi endurhannaði Jeep Compass hefur fegið frábæra dóma frá því að hann var frumsýndur í heimalandinu og þykir einn áhugaverðasti smájeppinn á markaðnum í dag og situr í efstu sætunum á lista yfir slíka jeppa í Bandaríkjunum þessa dagana.

En þótt það sé um mánuður þar til að áhugasamir geti skoðað og reynsluekið þessum jeppa, sem er nokkurskonar minnkuð útgáfa af Jeep Grand Cherokee, þá geta þeir samt lagt leið sína í sýningarsal Ísband við Þverholtið í Mosfellsbænum og skoðað þennan nýja jeppa hátt og lágt í sýndarveruleika.

Þessi veröld sýndarveruleika er nýjung sem Fiat Chrysler Automobiles (FCA) lét hanna í samvinnu við Accenture og er byggð á Tango – tækni Google fyrir snjallsíma og þróuð fyrir Lenovo Phab 2 Pro snjallsíma, fyrsta notendatækið sem er fyrir Tango.

Útlínur Jeep Compass hafa verið teiknaðar á gólf sýningarsalarins þar sem hægt er að skoða bílinn nánar. Við fengum Sigurð Kristinn Björnsson markaðsstjóra Ísband til að sýna okkur hvernig þetta er hægt. „Við tengjumst sýndarveruleikanum með spjaldtölvu og þegar henni er beint að útlínum bílsins á gólfinu birtist hann á skjánum. Það er hægt að smella á skjáinn og skipta um lit á bílnum, skoða felgur og annað í ytra útliti“.

Þá var komið að undirrituðum að prófa. Þegar gengið er nær þá nægir að smella fingri á hurð bílsins á skjánum og þá opnast hún og í framhaldinu er hægt að „setjast inn“ og skoða bílinn hátt og lágt að innan, stjórntæki og búnað. Ef aðeins var bakkað þegar inn er komið þá birtist bakið á bílstjórasætinu á skjánum og ég var í raun sestur í aftursætið og gat virt fyrir mér umhverfið þarna aftur í bílnum. Aðeins þarf að snúa spjaldtölvunni lítillega upp eða niður og augað nemur umhverfið eins og þegar setið er inni í raunverulegum bíl.

Þessi sýndarveruleiki gefur nánast ótakmarkaða möguleika á því að skoða bílinn, tæknibúnað og allan frágang. Hægt er að mella á viðkomandi atriði á skjánum til að skoða þau betur. Þessi upplifun að skoða þennan nýja Jeep Compass í þessum sýndarveruleika gerði mig enn spenntari að skoða bílinn sjálfan þegar hann verður frumsýndur eftir mánuð.

Frumsýndur á Bæjarhátíð Mosfellsbæjar 26. ágúst

„Við völdum að frumsýna þennan nýja jeppa hér hjá okkur þann 26. ágúst næstkomandi, einmitt þegar bæjarhátíð Mosfellsbæjar, Í túninu heima stendur yfir. Þá geta áhugasamir komið og skoðað bílinn og farið í reynsluakstur. Í byrjun verður bíllinn sýndur í grunngerðum, en síðar mun Trailhawk-útgáfan einnig koma á markaðinn hér hjá okkur, en það er jeppi sem er með meiri veghæð og betur búinn til aksturs á grófari vegslóðum“ segir Sigurður Kristinn.

Þessi önnur kynslóð af Jeep Compass byggir á lengri útgáfu af Jeep Renegade og nýtur þar þeirrar reynslu sem þróast hefur hjá Jeep á liðnum árum og áratugum, en hvað búnað áhrærir þá sækir Compas mikið til mun stærri bíla í Jeep-línunni, bíla á borð við Grand Cherokee.

En sjón er sögu ríkari, fyrst í sýndarveruleikanum hjá þeim í Þverholtinu í Mosfellsbæ og síðan eftir mánuð í lok ágúst þegar Compass verður frumsýndur.

-JR

Svona er hægt að virða fyrir sér nýjan Jeep Compass í sýndarveruleika í sýningarsal Ísband í Mosfellsbæ. Útlínur bílsins eru teiknaðar á gólfið og þegar gengið er nær þeim er hægt að opna hurðir og „setjast inn“ og skoða nánar.

Porche.is

You may also like...

Leave a Reply