Þarf nú að tryggja öll ökutæki – rafhjól sem og keppnistæki?

screen-shot-2016-12-21-at-23-06-50

Bíll Nico Rosberg í Red Bull Ring í Austurríki. Mynd © Georg Hochmuth/AFP Getty Images

Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi. Eins fáránlegt og það hljómar mun bóndi frá Slóvakíu sem datt ofan af heysátu, verða þess valdandi að tryggja þarf öll farartæki gegn tjóni þriðja aðila á evrópska efnahagssvæðinu og gildir þá einu hvar er ekið. Dómur sem féll árið 2014 mun að öllum líkindum verða til þess að tryggja þarf á þennan hátt ökutæki eins og Segway rafhjól upp í formúlu eitt keppnisbíla. Hvað það þýðir fyrir mótorsportið í heild sinni er ómögulegt að segja en hætta er á að sumar keppnisgreinar þar sem að miklar upphæðir eru í spilunum, líði hreinlega undir lok vegna svimandi hárra tryggingariðgjalda.

Slysið sem Damijan Vnuk lenti í árið 2007 varð með þeim hætti að traktor bakkaði á stiga sem hann var í og féll hann niður. Fór hann fram á bætur frá ökumanni traktorsins en tryggingarfélag traktorsins var ósammála og sagði að tryggingin næði aðeins til slysa sem yrðu á merktum vegi, en ekki á einkalandi. Dómsmálið náði alla leið til Evrópudómstólsins sem dæmdi í málinu árið 2014 Vnuk í vil. Löndum innan Evrópusambandsins eru venjulega gefin tvö ár til að koma úrskurðum Evrópudómstólsins í lög, og að sögn Andrew Jones, samgöngumálaráðherra Bretlands er Bretlandi nauðbeygður kosturinn að breyta lögum sínum í þá veru þrátt fyrir væntanlega útgöngu landsins úr ESB.

Samkvæmt úrskurðinum þurfa öll ökutæki, eins og Segway, rafmagnsvespur, gamlir hestvagnar og jafnvel keppnistæki að vera tryggð gagnvart tjóni þriðja aðila. Flest lönd hafa hingað til túlkað lög um ökutæki á þann hátt að tryggingar gagnvart þriðja aðila nái aðeins til aksturs á opinberum vegum, en ekki á einkalandi eða í keppni svo dæmi sé tekið. Strangt til tekið gæti aðili sem lendir í tjóni vegna ótryggðs ökutækis farið í mál við stjórnvöld í sínu heimalandi til greiðslu bóta, þar sem lög þar að lútandi hafa ekki verið gefin út. Steve Kenward, framkvæmdarstjóri sambands mótorhjólaframleiðanda í Bretlandi tekur djúpt í árinni og segir að dómurinn geri tryggingar ómögulegar í mörgum tilvikum. “Ef að breska stjórnin gerir þetta að lögum mun breskt mótorhjólasport að mestu líða undir lok” sagði Kenward. Hvaða áhrif dómurinn mun hafa í löndum ESB eða löndum innan evrópska efnahagssvæðisins eins og til dæmis Íslandi mun koma í ljós á næsta ári en sannarlega er útlitið dökkt eins og er.

Byggt á grein sem birtist á www.politico.eu

Porche.is

You may also like...

Leave a Reply